Einar Hermannsson var í kvöld kjörinn formaður SÁÁ. Hann hafði betur í kjörinu gegn Þórarni Tyrfingssyni með 32 atkvæðum gegn níu.
„Ég er ekki alveg búinn að átta mig á tilfinningunni ennþá. Þetta var sigur heildarinnar – þetta var ekki ég einn heldur hluti af grasrótinni, starfsfólki og samferðafólki í stjórninni sem stóð að þessu öllu. Ég er mjög ánægður með alla sem stóðu á bak við mig,“ segir Einar í samtali við mbl.is eftir sigurinn.
Fyrr í kvöld voru 16 kosnir í aðalstjórn og sjö í varastjórn SÁÁ á aðalfundi samtakanna sem fór fram á Hilton Nordica í Reykjavík í kvöld. Listi Einars hlaut meirihluta atkvæða í þeirri kosningu með 280 atkvæði af 490.
Að henni lokinni kaus sá hluti aðalstjórnar, sem var á aðalfundinum, og varamenn næsta formann og hlaut Einar mikinn meirihluta atkvæða.
Einar bauð sig fram með tvennt að leiðarljósi. Annars vegar að koma á fagstjórn yfir sjúkrahúsið Vog og hins vegar að endurskoða eignarhald SÁÁ á Íslandsspilum.
Sérðu fyrir þér að ráðast í breytingar strax?
„Nei nei þetta verður allt gert í samvinnu með starfsfólki sjúkrahússins og hvað spilakassana varðar þá er það í höndum framkvæmdastjórnar og 48 manna aðalstjórnar - en það vita allir minn hug hvað það varðar," bætir hann við að lokum.