Fimm starfsmenn ráðuneytis í sóttkví – tvö smit

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið.
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið. mbl.is/Golli

Fimm starfsmenn atvinnuvegaráðuneytisins eru nú í sóttkví og tveir starfsmenn eru smitaðir. 

Ásta Sigrún Magnúsdóttir, upplýsingafulltrúi ráðuneytisins, segir fyrra smitið hafa komið upp á föstudag og það seinna í gær. Auk þeirra fimm sem eru í sóttkví eru níu til viðbótar í úrvinnslusóttkví. 

Allir umræddra starfsmanna starfa á sömu hæð innan ráðuneytisins. Ásta Sigrún segir ráðherra, Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur og Kristján Þór Júlíusson, ekki hafa þurft að fara í sóttkví. 

„Það greindist fyrst smit á föstudag og fimm fóru í sóttkví eftir það. Í gær greindist annað smit og þá fóru níu aftur í úrvinnslusóttkví þar til smitrakningarteymið hefur tekist á við það,“ segir Ásta Sigrún.

Fram kemur á vef RÚV að eiginmaður Lilju Alfreðsdóttur menntamálaráðherra hafi greinst með veiruna, en hann er starfsmaður ráðuneytisins. Ásta Sigrún segist ekki geta sagt til um það hvaða starfsmenn hafi smitast, en Lilja er sjálf í sóttkví. 

Ásta Sigrún segir að ráðuneytið hafi verið sótthreinsað um helgina og ekki er talin þörf á að gera það aftur að sinni. Íslensk erfðagreining hefur boðið starfsfólki að fara í skimun og Ásta Sigrún segir að margir hafi þegið það boð. 

Þá segir Ásta Sigrún að starfsmenn ráðuneytisins hafi verið vel undir aðstæðurnar búnir og vinni heima.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert