Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra fundaði í dag með Gerard Pokruszyński, sendiherra Póllands á Íslandi, til þess að ræða eldsvoðann sem varð á Bræðraborgarstíg 1 síðasta fimmtudag, með þeim afleiðingum að þrír létust. Alla vega tveir þeirra voru Pólverjar. Ráðherra segir að í tengslum við aðstæður verkafólks hér á landi séu hlutir sem þurfi að laga.
„Ástæða þess að ég óskaði eftir þessum fundi var að mig langaði að votta þeim sem fulltrúum pólska samfélagsins mína samúð vegna þessa atburðar og hreinlega til að ræða þau áhrif sem þetta hefur haft á pólska samfélagið á Íslandi,“ segir Katrín.
Á fundinum var farið yfir stöðuna hjá þeim sem misstu heimili sitt í brunanum og allar sínar eigur. „Þetta er auðvitað svakalegt áfall og við ræddum þann stuðning sem þau hafa fengið frá ýmsum aðilum, meðal annars sendiráðinu, Reykjavíkurborg, Rauða krossinum og öðrum stofnunum,“ segir forsætisráðherra.
Katrín fundar að öðru leyti reglulega með sendiherrum á Íslandi og í þeim skilningi var þessi fundur engin undantekning. „En þetta er auðvitað einn versti bruni á Íslandi í 30-40 ár og því eðlilegt að eiga fund með sendiherra Pólverja, sem er stærsta samfélag innflytjenda á Íslandi,“ segir hún.
Á fundinum var farið yfir þau sjónarmið sem hafa komið fram vegna málsins um nauðsynlegar umbætur á aðbúnaði erlendra verkamanna á Íslandi. „Í fyrsta lagi hefur þetta verið rætt út frá mannvirkjalöggjöfinni og hvort þurfi að bæta eftirlitsheimildir vegna íbúðarhúsnæðis. Síðan hafa verið rædd önnur atriði sem heyra undir sveitarfélögin,“ segir Katrín.
Í því samhengi hefur Halldór Grönvold aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ haldið því fram að heilbrigðisnefndir sveitarfélaganna sinni ekki eftirlitshlutverki sínu með húsnæði sem vinnuveitendur útvega. Þá hefur Helga Vala Helgadóttir þingmaður Samfylkingarinnar kallað eftir því að slökkvilið fái heimild til þess að hafa eftirlit með einkaheimilum.
Katrín nefnir einnig þá staðreynd að 73 hafi verið með skráð lögheimili í húsinu, en það er óhugsandi að svo margir hafi haft þar raunverulega búsetu. „Það hafa verið gerðar breytingar á löggjöf um lögheimili nýlega, meðal annars til að auka gagnsæi. Þó að það sé ekkert þak á lögheimilum, þá er mikilvægt að auka yfirsýn því það vekur auðvitað athygli hve margar skráningar eru þarna í einu húsi,“ segir Katrín.
Katrín bendir á að tvennt hafi helst verið til umræðu í tengslum við eldsvoðann, nefnilega húsnæðis- og mannvirkjamálin en einnig stöðug umræða sem varðar aðstæður fólks á vinnumarkaði. Forsætisráðherra kveðst hafa tekið þátt í þeirri umræðu.
„Þar eru auðvitað hlutir sem þarf bara að laga og það er eitt af því sem við gáfum út yfirlýsingar um í tengslum við lífskjarasamninga, að gera ákveðnar lagabreytingar til að tryggja betur að hér séu til að mynda ekki iðkuð félagsleg undirboð. Ég er ekkert að segja til um það í tengslum við þennan bruna, en alveg ótengt honum vitum við að þar er oft erlent verkafólk sem þar er undir. Það er eitt af því sem ég á von á frumvarpi um næsta haust frá félagsmálaráðherra og það er auðvitað stórmál að við tökum á því með viðunandi hætti,“ segir Katrín.
Eldsvoðinn á Bræðraborgarstíg hefur verið sagður afhjúpandi fyrir þær aðstæður sem vinnuveitendur geta kallað yfir starfsfólk sitt og hefur það valdið mikilli reiði. Katrín segir að slæmur aðbúnaður verkafólks vegna ákvarðana vinnuveitenda sé margrætt mál. „Þetta varpar skugga á greinina, því auðvitað eru langflestir atvinnurekendur með allt sitt á hreinu. En auðvitað eru dæmi um annað, sem þýðir ekki að horfa framhjá, heldur þarf að taka á,“ segir hún.