„Hlutir sem þarf bara að laga“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í Stjórnarráðinu.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í Stjórnarráðinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Katrín Jak­obs­dótt­ir for­sæt­is­ráðherra fundaði í dag með Ger­ard Pokruszyński, sendi­herra Pól­lands á Íslandi, til þess að ræða elds­voðann sem varð á Bræðra­borg­ar­stíg 1 síðasta fimmtu­dag, með þeim af­leiðing­um að þrír lét­ust. Alla vega tveir þeirra voru Pól­verj­ar. Ráðherra seg­ir að í tengsl­um við aðstæður verka­fólks hér á landi séu hlut­ir sem þurfi að laga.

„Ástæða þess að ég óskaði eft­ir þess­um fundi var að mig langaði að votta þeim sem full­trú­um pólska sam­fé­lags­ins mína samúð vegna þessa at­b­urðar og hrein­lega til að ræða þau áhrif sem þetta hef­ur haft á pólska sam­fé­lagið á Íslandi,“ seg­ir Katrín.

Á fund­in­um var farið yfir stöðuna hjá þeim sem misstu heim­ili sitt í brun­an­um og all­ar sín­ar eig­ur. „Þetta er auðvitað svaka­legt áfall og við rædd­um þann stuðning sem þau hafa fengið frá ýms­um aðilum, meðal ann­ars sendi­ráðinu, Reykja­vík­ur­borg, Rauða kross­in­um og öðrum stofn­un­um,“ seg­ir for­sæt­is­ráðherra.

Gerard Pokruszyński, sendiherra Póllands á Íslandi.
Ger­ard Pokruszyński, sendi­herra Pól­lands á Íslandi. Ljós­mynd/​Gov.pl

Katrín fund­ar að öðru leyti reglu­lega með sendi­herr­um á Íslandi og í þeim skiln­ingi var þessi fund­ur eng­in und­an­tekn­ing. „En þetta er auðvitað einn versti bruni á Íslandi í 30-40 ár og því eðli­legt að eiga fund með sendi­herra Pól­verja, sem er stærsta sam­fé­lag inn­flytj­enda á Íslandi,“ seg­ir hún.

Of marg­ir með lög­heim­ili í hús­inu

Á fund­in­um var farið yfir þau sjón­ar­mið sem hafa komið fram vegna máls­ins um nauðsyn­leg­ar um­bæt­ur á aðbúnaði er­lendra verka­manna á Íslandi. „Í fyrsta lagi hef­ur þetta verið rætt út frá mann­virkjalög­gjöf­inni og hvort þurfi að bæta eft­ir­lits­heim­ild­ir vegna íbúðar­hús­næðis. Síðan hafa verið rædd önn­ur atriði sem heyra und­ir sveit­ar­fé­lög­in,“ seg­ir Katrín.

Í því sam­hengi hef­ur Hall­dór Grön­vold aðstoðarfram­kvæmda­stjóri ASÍ haldið því fram að heil­brigðis­nefnd­ir sveit­ar­fé­lag­anna sinni ekki eft­ir­lits­hlut­verki sínu með hús­næði sem vinnu­veit­end­ur út­vega. Þá hef­ur Helga Vala Helga­dótt­ir þingmaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar kallað eft­ir því að slökkvilið fái heim­ild til þess að hafa eft­ir­lit með einka­heim­il­um.

Katrín nefn­ir einnig þá staðreynd að 73 hafi verið með skráð lög­heim­ili í hús­inu, en það er óhugs­andi að svo marg­ir hafi haft þar raun­veru­lega bú­setu. „Það hafa verið gerðar breyt­ing­ar á lög­gjöf um lög­heim­ili ný­lega, meðal ann­ars til að auka gagn­sæi. Þó að það sé ekk­ert þak á lög­heim­il­um, þá er mik­il­vægt að auka yf­ir­sýn því það vek­ur auðvitað at­hygli hve marg­ar skrán­ing­ar eru þarna í einu húsi,“ seg­ir Katrín.

Þýðir ekki að horfa fram­hjá vand­an­um, held­ur þarf að taka á hon­um

Katrín bend­ir á að tvennt hafi helst verið til umræðu í tengsl­um við elds­voðann, nefni­lega hús­næðis- og mann­virkja­mál­in en einnig stöðug umræða sem varðar aðstæður fólks á vinnu­markaði. For­sæt­is­ráðherra kveðst hafa tekið þátt í þeirri umræðu.

„Þar eru auðvitað hlut­ir sem þarf bara að laga og það er eitt af því sem við gáf­um út yf­ir­lýs­ing­ar um í tengsl­um við lífs­kjara­samn­inga, að gera ákveðnar laga­breyt­ing­ar til að tryggja bet­ur að hér séu til að mynda ekki iðkuð fé­lags­leg und­ir­boð. Ég er ekk­ert að segja til um það í tengsl­um við þenn­an bruna, en al­veg ótengt hon­um vit­um við að þar er oft er­lent verka­fólk sem þar er und­ir. Það er eitt af því sem ég á von á frum­varpi um næsta haust frá fé­lags­málaráðherra og það er auðvitað stór­mál að við tök­um á því með viðun­andi hætti,“ seg­ir Katrín.

Elds­voðinn á Bræðra­borg­ar­stíg hef­ur verið sagður af­hjúp­andi fyr­ir þær aðstæður sem vinnu­veit­end­ur geta kallað yfir starfs­fólk sitt og hef­ur það valdið mik­illi reiði. Katrín seg­ir að slæm­ur aðbúnaður verka­fólks vegna ákv­arðana vinnu­veit­enda sé margrætt mál. „Þetta varp­ar skugga á grein­ina, því auðvitað eru lang­flest­ir at­vinnu­rek­end­ur með allt sitt á hreinu. En auðvitað eru dæmi um annað, sem þýðir ekki að horfa fram­hjá, held­ur þarf að taka á,“ seg­ir hún.  

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert