Aðalfundur SÁÁ fer fram í dag þar sem kosið verður um formann samtakanna. Deilur hafa verið innan SÁÁ um hríð sem komu upp á yfirborðið þegar Valgerður Rúnarsdóttir, yfirlæknir á Vogi, sagði starfi sínu lausu vegna óánægju með ákvörðun framkvæmdastjórnar félagsins um að segja upp þremur af sex sálfræðingum Vogs í hagræðingarskyni.
Valgerður dró síðar uppsögn sína til baka og í kjölfarið dró framkvæmdastjórn allar uppsagnir til baka. Valgerður hefur sagt að skýra þurfi hlutverk stjórnar og faglegra starfsmanna betur.
Einar Hermannson, sem sat til skamms tíma í framkvæmdastjórn SÁÁ og hefur setið í stjórn samtakanna í 4 ár, og Þórarinn Tyrfingsson, fyrrverandi yfirlæknir á Vogi og fyrrverandi formaður samtakanna, gefa kost á sér í formannskjörinu í dag. Arnþór Jónsson, formaður SÁÁ, gefur ekki kost á sér.
Meirihluti starfsmanna meðferðarsviðs SÁÁ lagðist í síðustu viku gegn því að Þórarinn gæfi kost á sér. 57 starfsmenn af rúmlega 80 sem starfa á meðferðarsviði SÁÁ skrifuðu undir yfirlýsingu þar sem segir: „Við viljum ekki Þórarinn [sic] Tyrfingsson aftur!“ Nokkrir starfsmenn vildu ekki láta nafn síns getið af ótta við viðbrögð Þórarins Tyrfingssonar, „sem sýnir kannski í einföldustu myndinni þá ógnarstjórn sem var við lýði þegar hann var við stjórn“, að því er segir í yfirlýsingunni.
Starfsmennirnir sem undirrituðu yfirlýsinguna styðja framboð Einars. Þórarinn hefur aftur á móti sagst vilja ná einingu innan SÁÁ og kveða niður þann óróleika sem einkennt hefur starf samtakanna síðustu misseri.
Það má því búast við harðri baráttu um formanns- og stjórnarsæti á aðalfundinum sem hefst klukkan 17 á eftir. Formannskjör fer fram að fundi loknum.