Kosningu í aðalstjórn og varastjórn SÁÁ, á aðalfundi samtakanna á Hilton Reykjavík Nordica, lauk nú rétt eftir klukkan átta í kvöld. Samkvæmt heimildum mbl.is hlaut sá listi, eða þeir einstaklingar, sem styðja framboð Einars Hermannssonar til formanns, meirihluta atkvæða.
16 einstaklingar voru kosnir í 48 manna aðalstjórn og sjö varamenn. Síðar í kvöld mun aðalstjórn skera úr um hvor verður næsti formaður samtakanna; Einar Hermannsson eða Þórarinn Tyrfingsson. Fyrst þarf þó að útkljá önnur dagskrármál.
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, kemur inn sem aðalmaður í stjórn í stað Lindu Pétursdóttur.
Arnþór Jónsson, sitjandi formaður samtakanna, sækist ekki eftir endurkjöri. Kosningabaráttan hefur verið hörð, eins og þau átök sem hafa átt sér stað milli starfsmanna sjúkrahússins Vogs og forystu stjórnar SÁÁ. Valgerður Rúnarsdóttir, yfirlæknir á Vogi, styður framboð Einars sem vill koma á fagstjórn yfir sjúkrahúsinu Vogi.
Fréttin hefur verið uppfærð.