Úr 23 hópuppsögnum í fjórar

Rannsókn á rekstri þeirra fyrirtækja sem nýttu hlutabótaleið stjórnvalda fyrir …
Rannsókn á rekstri þeirra fyrirtækja sem nýttu hlutabótaleið stjórnvalda fyrir starfsfólk sitt er ekki farin af stað. mbl.is/Eggert Jóhannesson

155 manns misstu vinnuna í fjórum hópuppsögnum í júnímánuði, að sögn Unnar Sverrisdóttur, forstjóra Vinnumálastofnunar. Atvinnuleysi stendur í stað á milli mánaða og mælist því rúm 7%. Gert er ráð fyrir að þeim haldi áfram að fækka sem þiggja hlutabætur vegna skerts starfshlutfalls. 

Í maímánuði var 1.323 manns sagt upp í 23 hópuppsögnum og hefur því dregið verulega úr stórum uppsögnum. Unnur segir að þrátt fyrir það sé álagið á Vinnumálastofnun enn mikið. 

„Við erum enn bæði að reka hlutabótaleiðina og almenna kerfið og það er alveg gríðarlegur fjöldi sem er hér í greiðsluþjónustu. Miklu meiri fjöldi en kerfin okkar eru hönnuð fyrir svo við erum hlaupandi alveg hreint myrkranna á milli.“

„Þessi sjúkdómur mun líka alltaf setja strik í reikninginn“

Spurð hvort það að fólki sem þiggi hlutabætur fari fækkandi þýði að fleiri hafi endurheimt störf sín að fullu segir Unnur: 

„Skilyrðunum var breytt gríðarlega mikið í júní. Hluti af þessu fólki fer líklega inn í sín gömlu störf en hluti er líklega að fara inn í uppsagnarfrest eða eitthvað slíkt.“

Eftir um tvo mánuði mun það koma betur í ljós, að sögn Unnar. 

„Þá sjáum við nokkurn veginn hvernig þetta þróast. Svo er uppi óvissa um það hvort fyrirtæki nái sér á strik aftur og þessi sjúkdómur mun líka alltaf setja strik í reikninginn.“

Eru ekki að renna út á tíma

Unnur segir að atvinnulífið hafi tekið „allhressilega“ við sér í maí og byrjun júní en síðan þá hafi það staðið í stað. 

Rannsókn á rekstri þeirra fyrirtækja sem nýttu hlutabótaleið stjórnvalda fyrir starfsfólk sitt er ekki farin af stað.

„Á meðan við erum með allt þetta fólk í greiðslu getum við ekki farið í þá vinnu. Það er háannatími í sumarfríum líka enda erum við ekki að renna út á tíma með [rannsóknina].“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert