Alfarið hægt að skilja veskið eftir heima

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hér um bil 200.000 Íslendingum með bílpróf býðst nú að vera með stafrænt ökuskírteini í símanum. Það ógildir ekki gamla góða kortið, en losar mann við þörfina á að hafa það meðferðis öllum stundum.

Þrír ráðherrar og ríkislögreglustjóri kynntu nýju lausnina við nokkra kátínu í fjármálaráðuneytinu rétt fyrir hádegi í dag. Einn þeirra er Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra, en hennar ráðuneyti útfærði skírteinin: „Það er mjög gaman að þetta sé orðið að veruleika. Vonandi einfaldar þetta líf fólks og gerir það að verkum að það geti skilið veskið eftir heima,“ sagði hún í samtali við mbl.is eftir blaðamannafundinn.

Íslendingar eru númer tvö á eftir Norðmönnum að koma svona kerfi á fót. „Það er alveg lágmark að við séum önnur þjóð í Evrópu til að koma þessu á,“ sagði Áslaug á fundinum. Þessi mál eru enn ekki komin eins langt innan Evrópusambandsins, sagði Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra, og því enn ekki hægt að bera fyrir sig stafræna skírteinið í útlöndum.

Endanlega hægt að skilja veskið eftir heima

Skírteinið á að geta verið virkt í kortaveskinu í snjallsímunum á sömu slóðum og margir hafa þegar komið greiðslukortum sínum fyrir. Það er þekkt að margir eru farnir að skilja greiðslukort eftir heima og stundum gervallt veskið í leiðinni og kemst þessi hópur þá í hann krappann þegar yfirvaldið biður hann að sýna fram á ökuréttindi sín. Sá vandi ætti nú að vera úr sögunni, nema önnur nauðsynleg kort komi við sögu.

Stafræna lausnin hefur þegar tekið gildi, þannig að fara má inn á island.is/okuskirteini og sækja skilríkin, eins og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hélt innblásna sýnikennslu um á fundinum, en honum hefur eins og dómsmálaráðherra benti á verið mjög í mun um að stafrænuvæða stjórnsýsluna.

Fjármálaráðherra kynnti kerfið á vefnum.
Fjármálaráðherra kynnti kerfið á vefnum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stafræn skilríki, ef maður er með bílpróf

Stafrænu skilríkin eiga að hafa alveg sama gildi og hin kjötlegu og eiga því að vera gild skilríki í kosningum og öðru slíku. Að geta sannað á sér deili með stafrænu móti á slíkum vettvangi verður þó um sinn einkaréttur þeirra sem einnig hafa ökuréttindi, því að nafnskírteini, sem hefur sama gildi og ökuskírteini nema að því leyti að það er óskylt ökuréttindum, hefur enn ekki undirgengist þessa sömu stafrænu byltingu.

Áslaug segir þó að það standi til bóta. „Það er ekki komin nein rafræn lausn á því en það þarf að búa til ný lög um nafnskírteini og það er á dagskrá í ráðuneytinu. Það hefur ekki verið komist í það,“ segir Áslaug.

Uppfært 13.43: Mikið álag virðist vera á island.is, sem veldur því að einhverjir eiga í erfiðleikum með því að sækja skírteinið sitt.

Skírteinin komin í símana, en haldið fyrir persónugreinanlegan kóða sem …
Skírteinin komin í símana, en haldið fyrir persónugreinanlegan kóða sem er best að bara lögreglan berji augum: Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri, Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert