Þolendur kynferðisofbeldis leita sér aðstoðar að meðaltali 18 árum eftir að brotin eru framin. Alls leituðu 885 manns til Stígamóta á árinu 2019, þar af voru 24% þolendur nauðgana af hálfu maka.
Flestir þolendur (35,9%) urðu fyrir ofbeldi á aldrinum 11-17 ára og tilkynntu ofbeldið á aldrinum 18-29 ára, en næstflestir (26%) urðu fyrir kynferðisofbeldi á aldrinum 5-10 ára.
Steinunn Gyðu-Guðjónsdóttir, verkefnastýra hjá Stígamótum, segir biðlista Stígamóta hafa lengst í kjölfar kórónuveirufaraldursins og að mikil aukning kalli á fleiri stöðugildi til að geta sinnt fjöldanum og stytt biðlista.
„Það er virkilega sorglegt hvað fólk er að koma mörgum árum seinna. Það verður fyrir ofbeldinu á bilinu 5-15 ára og við myndum vilja ná þeim þá. Við myndum vilja geta veitt þeim aðstoð áður en þau sitja uppi með allar þessar afleiðingar og nota fíkniefni eða áfengi til að deyfa sig,“ sagði hún.