Óvissustig almannavarna á Norðausturlandi vegna jarðskjálftahrinunnar sem hófst 19. júní er enn í gildi og á meðan hrinan stendur yfir eru auknar líkur á stórum skjálftum á brotabelti norðan við land og áfram talin hætta á grjóthruni og skriðum úr bröttum hlíðum.
Í einstaka tilfellum fylgir flóðbylgja stærri skjálftum og því mikilvægt að fólk haldi sig fjarri strönd og höfnum í nokkrar klukkustundir eftir stærri jarðskjálfta.
Þetta kemur fram í tilkynningu almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra á Facebook, það er að segja styttri útgáfunni. Lengri útgáfan fylgir einnig en í henni kemur m.a. fram að tæplega níu þúsund skjálftar hafi mælst í hrinunni og hún sé sú öflugasta í ríflega 40 ár.
Svæði þar sem skriðuföll geta átt sér stað má sjá á mynd sem fylgir færslunni en um stórt svæði er að ræða. Þá fylgja færslunni almenn tilmæli til almennings frá Veðurstofu Íslands verði jarðskjálfti >6 í nágrenni við Flatey á Skjálfanda eða Húsavík skal:
- Halda kyrru fyrir meðan að jarðskjálftinn ríður yfir.
- Halda sig frá byggingum sem hafa skemmst.
- Halda sig frá skriðuhlíðum.
- Halda sig frá höfninni og strönd vegna hugsanlegrar flóðbylgju af hafi næstu klukkustundir.
Búast má við að tugir eftirskjálfta finnist í nærumhverfi skjálftaupptakanna næstu 24 tímana.