Takmarkanir næstu mánuði og jafnvel ár

„Veiran á nægilegt fóður hér á Íslandi. Við þurfum að …
„Veiran á nægilegt fóður hér á Íslandi. Við þurfum að búa við takmarkanir og breyttan hugsunarhátt í marga mánuði eða jafnvel ár eða lengur,“ sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á upplýsingafundi almannavarna í dag. Ljósmynd/Lögreglan

Landsmenn mega búa sig undir að búa við takmarkanir og breyttan hugsunarhátt vegna kórónuveirunnar næstu mánuði og jafnvel lengur að sögn Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis. 

„Veiran á nægilegt fóður hér á Íslandi. Við þurfum að búa við takmarkanir og breyttan hugsunarhátt í marga mánuði eða jafnvel ár eða lengur,“ sagði Þórólfur á upplýsingafundi almannavarna í dag. 

Skimun hófst á landamærum Íslands fyrir hálfum mánuði og segir Þórólfur að það fyrirkomulag verði í að minnsta kosti hálft ár. „Ég held að við þurfum að vera viðbúin því að vera með aðgerðir sem virki til að takmarka það að veiran komi hingað inn.“ 

Ekki von á bóluefni á næstunni sem „mun bjarga öllu“

Hann segir aðferðafræðina geta komið til með að breytast eftir þróun faraldursins á heimsvísu. „Við erum að gera allt sem við getum til þess að gera þetta eins vel og hægt er, sníða aðferðafræðina okkar að þekkingu og því sem við fáum upplýsingar um. Hvað það stendur lengi veit ég ekki og er ómögulegt að segja.“

Þá sagði Þórólfur ekkert nýtt benda til þess að biðin eftir bóluefni gegn COVID-19 sé að styttast. „Menn eru að gera framvirka samning um að tryggja sér 20% af þörf eftir ár eða meira í alþjóðasamningum. Mér sýnist ekki vera að koma bóluefni á næstu mánuðum sem mun bjarga öllu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert