26 milljóna Paradísarheimt

Bíó Paradís við Hverfisgötu.
Bíó Paradís við Hverfisgötu. mbl.is/Golli

Sú ráðstöfun að stuðningur frá ríki og borg muni héðan í frá nema samtals 26 milljónum tryggði áframhaldandi rekstur Bíó Paradísar við Hverfisgötu. Í óefni stefndi þegar leigusali hugðist hækka leigu langt umfram það sem bíóið taldi sig geta borgað en því hefur nú verið afstýrt að reksturinn leggist af.

Bíóið, sem er rekið af Heimili kvikmyndanna, fær, eftir að upphæðin var hækkuð í borgarráði í dag, eftirleiðis 13 milljónir á ári frá bæði borg og ríki, til viðbótar við þann stuðning sem það þegar fékk í tengslum við ýmis verkefni með skólum og í tengslum við kvikmyndahátíðir sem ríkið tekur þátt í. Stuðningurinn sem þegar var veittur var upp á 9-10 milljónir. Að auki hefur kvikmyndahúsið náð betri samningum við leigusalann en fyrst stefndi í.

Drögin að samningi við Heimili kvikmyndanna voru samþykkt einróma á borgarráðsfundi fyrr í dag. Stuðningurinn frá ríkinu kemur frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu. 

Þurfa að merkja efni Reykjavíkurborg

Verði hagnaður af rekstri bíósins heldur það honum til ráðstöfunar og ver honum í þágu þess að tryggja starfsemi kvikmyndahússins. Fyrsta árið fær félagið 6,5 milljónir frá borginni, enda tekur samningurinn gildi 2. júlí 2020. Frá og með árinu 2021 og til 2024 verða 13 milljónir á ári greiddar út með 12 jöfnum greiðslum yfir árið.  

Í skilmálum samningsins kemur fram að Bíó Paradís beri ábyrgð á að kynna Reykjavíkurborg sem kvikmyndaborg og áhugaverða menningarborg. „Á öllu kynningarefni Bíó Paradísar jafnt innanlands sem utan skal koma fram á áberandi hátt að Bíó Paradís sé styrkt af Reykjavíkurborg,“ segir í samningnum en löngum hefur þó þegar mátt sjá merki Reykjavíkurborgar á vefsíðu bíósins, þannig að þetta eru ekki nýmæli.

„Bíó Paradís skal gæta þess að geta Reykjavíkurborgar sem bakhjarls og samstarfsaðila í ræðu og riti þegar kvikmyndahúsið er kynnt í fjölmiðlum, þar sem því verður komið við og þykir eðlilegt,“ segir jafnframt.

Bíóið mun hefja aftur starfsemi í haust, en það hefur verið lokað um nokkurt skeið bæði vegna kórónuveirufaraldursins og ofangreindrar óvissu. Heimili kvikmyndanna, þ.e. rekstraraðilinn, er sjálfseignarstofnun sem var sett á laggirnar í ágúst 2010 af Samtökum íslenskra kvikmyndaframleiðenda, Félagi kvikmyndargerðarmanna, Samtökum kvikmyndaleikstjóra, Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík og Félagi kvikmyndaunnenda.

Uppfært: Ranglega var sagt í fréttinni þegar hún birtist að allar 13 milljónirnar væru nýmæli. Hið rétta er að þegar var í gildi stuðningur, en hann var hækkaður upp í 13 milljónir hjá bæði ríki og borg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert