Alþingi hefur samþykkt tvö frumvörp Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, um einföldun regluverks.
Með lögunum voru alls 33 lagabálkar felldir brott í heild sinni, fimm stjórnsýslunefndir lagðar niður og stjórnsýsla og regluverk á málefnasviðum ráðherra einfölduð töluvert.
Frumvörpin eru afrakstur samráðs sem haft var við helstu hagsmunaaðila og stofnanir ráðuneytisins. Um er að ræða fjölmargar breytingar á núgildandi lögum á sviði matvæla, landbúnaðar, sjávarútvegs og fiskeldis.
Fyrr í vetur felldi ráðherra brott 1.242 reglugerðir og tvo lagabálka auk þess sem regluverk sem gildir um matvælakeðjuna var einfaldað, sem var liður í fyrsta áfanga aðgerðaráætlunarinnar. Verkefnið er unnið í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.