Samkvæmt kosningu um tímabundna vinnustöðvun meðal félagsmanna Sjómannafélags Íslands hefjast aðgerðir á miðnætti næsta þriðjudags og standa í sólarhring. Í kjölfarið verður svo tveggja sólarhringa vinnustöðvun frá miðnætti 14. júlí og þriggja sólarhringa vinnustöðvun frá miðnætti 28. júlí.
Eyjafréttir greina frá málinu, en Jónas Garðarsson, formaður samninganefndar félagsins, segir í samtali við mbl.is að 20 félagsmenn séu í áhöfn Herjólfs og greiddu 17 þeirra atkvæði sem öll voru með því að fara í vinnustöðvun.
Jónas staðfestir jafnframt að málið sé nú komið í félagsdóm, en Herjólfur Ohf. telur aðgerðirnar ólögmætar. Búist er við niðurstöðu félagsdóms á mánudaginn.