„Það voru gerðar alvarlegar athugasemdir við húsið og það talið í raun óíbúðarhæft. Síðan var íbúum gefinn smá frestur til að hreinlega fara og skilaboðin til eigandans voru mjög skýr – íbúarnir þurftu að yfirgefa húsið,“ segir Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri hjá slökkviðinu á höfuðborgarsvæðinu, um hús að Dalvegi 24, í samtali við mbl.is.
Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu fór ásamt lögreglu, starfsmönnum Vinnueftirlitsins og embætti ríkisskattstjóra auk byggingafulltrúa Kópavogs í skoðun á húsinu 9. júní.
Þar bjuggu erlendir verkamenn en alvarlegar athugasemdir voru gerðar við aðbúnað og eldvarnir og var eigandinn látinn rýma húsið. Dalvegur 24 er í eigu HD verks ehf. sem á einnig húsnæðið við Bræðraborgarstíg 1, sem brann í síðustu viku með þeim afleiðingum að þrír létu lífið. Þetta kom fram í tíufréttum RÚV.
HD verk á einnig húsnæðið við Dalveg 26, Hjallabrekku 1, Kárnesbraut 96a þar sem erlendir verkamenn búa samkvæmt því er fram kemur á RÚV. Þá á fyrirtækið einnig húsnæðið við Bræðraborgarstíg 3, þar sem 134 eru með skráð lögheimili.
Jón Viðar segir að slökkviliðið hafi nýlega farið í öryggisúttekt á Hjallabrekku 1 og gerðar hafi verið alvarlegar athugasemdir við húsnæðið. Ekkert var aðhafst í kjölfarið enda þarf samkvæmt lögum að gefa eiganda frest til að ráðast í úrbætur.
Spurður hvort að slökkviliðið muni í kjölfarið skoða hina staðina í eigu HD verks segir Jón Viðar að samtal þurfi að eiga sér stað við byggingarfulltrúann í Kópavogi til að „stilla saman strengi“.