Jarðskjálfti af stærð 3,1 varð klukkan 4:15 í nótt, um 20 kílómetra norðvestur af Gjögurtá. Þetta er stærsti skjálftinn sem mælst hefur á svæðinu síðustu tvo sólarhringa en Veðurstofunni hafa ekki borist tilkynningar um að hann hafi fundist í byggð. Um klukkan sex í morgun varð annar skjálfti á svipuðu svæði, 2,8 að stærð.
Jarðskjálftahrinan við mynni Eyjafjarðar er því enn yfirstandandi en frá því að hrinan hófst 19. júní hefur sjálfvirkt jarðskjálftakerfi Veðurstofunnar staðsett um 9.600 skjálfta.
Þrír skjálftar yfir 5 að stærð hafa mælst í hrinunni, sá stærsti sunnudagskvöldið 21. júní kl. 19:07 af stærð 5,8 rúma 30 km NNA af Siglufirði. Aðrir skjálftar yfir 5 að stærð voru 5,6 og 5,4 að stærð og voru staðsettir rúma 20 km NA af Siglufirði.
Óvissustig almannavarna vegna skjálftahrinunnar er enn í gildi og enn mælist mikið af minni skjálftum á svæðinu og áfram eru líkur á því að fleiri stærri skjálftar muni verða.