Minnast Finns og Jóhönnu með hlýhug

Jóhanna S. Sigurðardóttir og Finnur Einarsson voru virk í starfi …
Jóhanna S. Sigurðardóttir og Finnur Einarsson voru virk í starfi HOG Chapter Iceland, samtökum eigenda Harley Davidson-mótorhjóla á Íslandi, og er þeirra minnst af miklum hlýhug á Facebook-síðu samtakanna. Ljósmynd/Facebook

Bifhjóla- og góðgerðarsamtökin HOG Chapter Iceland minnast Finns Einarssonar og Jóhönnu S. Sigurðardóttur, parsins sem lést í umferðarslysi á Kjalarnesi á sunnudag, með þakklæti og hlýjum orðum. 

Í færslu á Facebook-síðu samtakanna sem birt var í gær segir að Finnur og Jóhanna hafi verið mjög virk í starfi samtakanna, en Finnur tók við varaformennsku í upphafi árs 2019. 

„Þegar Chapterinn missti síðasta athvarf sitt keyptu þau hjónin húsnæðið í Nethyl sem þau lögðu endurgjaldslaust undir Chapterinn og hefur það verið mikils metið,“ segir í færslunni sem Bjarni Vestmann, formaður HOG Chapter Iceland, undirritar. 

Finnur og Jóhanna láta eftir sig fjögur uppkomin börn og votta samtökin þeim og öllum aðstandendum og vinum sína dýpstu samúð. 

Ökumaður bifhjóls sem slasaðist í slysinu á sunnudag er einnig félagi í samtökunum en hann er á batavegi að því er fram kemur í færslunni og eru honum sendar bestu batakveðjur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert