Þjónusta sem ekki á að vera veitt fram á nótt

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarna.
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavörnum, segir hópsýkingu sem kom upp um síðustu sýna hve mikil smithætta sé á skemmtistöðum og í einkasamkvæmum. Hann vonast til þess að hægt verði að veita rekstraraðilum skemmtistaða og veislusala stuðning. 

Mbl.is hefur greint frá því að rekstur b5 við Bankastræti og fleiri skemmtistaða sé í mikilli óvissu. Skemmtistaðir fá að hafa opið til 23 á kvöldin og útlit er fyrir það að ástandið muni dragast á langinn. Talsvert hefur borið á því að skemmtanalífið hafi farið fram í veislusölum og oft virðast samkvæmi í slíkum sölum standa lengi fram eftir. Þórður Ágústsson og Þórhallur Viðarsson, rekstraraðilar b5, hafa meðal annars gagnrýnt það og sagt að hægt sé að leigja út sali til klukkan 3 á nóttunni án þess að athugasemdir séu gerðar. 

Víðir segir að sé það svo að samkvæmi í veislusölum standi yfir langt fram á nótt sé annaðhvort verið að brjóta sóttvarnareglur eða þá að umræddir salir séu án sérstaks rekstarleyfis. 

„Við mælum bara alls ekki með því að fólk sé að standa fyrir einhverjum uppákomum sem standa svona lengi og það gilda sömu rök fyrir það og skemmtistaðina. Vandamálið sem við stöndum frammi fyrir er að það eru salir sem hafa ekki leyfi og þar er hægt að halda einkasamkvæmi og við náum ekki að halda utan um það. Það er líka fullt af sölum sem eru með leyfi og falla undir sömu reglur og skemmtistaðir, ef salurinn er með slíkt leyfi væri verið að brjóta þær reglur með því að hafa samkomur lengur en til 23,“ segir Víðir. 

Finnur til með rekstrareigendum

„Gagnvart þeim sem eiga þessa sali, þetta snýr ekki bara að skemmtistöðum, þetta snýr að viðburðum þar sem er margt fólk og þéttleiki á litlu plássi. Smithættan er mjög mikil af þessu eins og við sáum um síðustu helgi eftir einkasamkvæmi. Það á ekki að vera veita þessa þjónustu fram á nótt. Nú þurfum við bara að standa saman í þessu,“ segir Víðir. 

Víðir segist finna til með rekstrareigendum og vonast til þess að hægt sé að koma til móts við þá, en Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði í samtali við mbl.is fyrr í dag að rekstraraðilar skemmtistaða eigi sanngjarna kröfu um stuðning. 

„Maður finnur auðvitað mikið til með rekstrareigendum þar sem er mikið eða algjört tekjufall. Maður vonar að það sé hægt að finna leið til að aðstoða þessa aðila í sínum rekstri og vonandi verða þeirra mál skoðuð í samhengi við þá aðstoð sem rekstraraðilar hafa verið að fá vegna regla frá yfirvöldum,“ segir Víðir.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert