Þrjú smit greindust eftir hádegi

Smitum hefur fjölgað um sex síðastliðinn sólarhring.
Smitum hefur fjölgað um sex síðastliðinn sólarhring. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þrír einstaklingar greindust smitaðir af COVID-19 eftir hádegi í dag. Allir tengdust þeir konu sem kom frá Albaníu fyrir tíu dögum og greindist með kórónuveiruna í fyrradag. Þetta staðfestir Runólfur Pálsson, yfirlæknir á lyflækningadeild Landspítalans, í samtali við mbl.is.

RÚV greindi fyrst frá. Þrjú smit greindust í gær og hefur smitum fjölgað um alls sex síðan þá.

Runólfur segir fólkið ekki vera alvarlega veikt og það eigi í raun við um alla sem sýkst hafi í „þessari seinni bylgju“.

„Síðan landamærin voru opnuð hafa náttúrulega greinst einstaklingar – Íslendingar fyrst og fremst – og það hefur enginn verið alvarlega veikur. Þetta er ungt fólk að uppistöðu til og ég held að það spili ákveðið hlutverk. Það þolir þetta að því er virðist betur,“ segir hann.

Ekkert áfall heldur viðbúið

„Það er enginn inni á sjúkrahúsi og enginn hefur þurft á inngripi af okkar hálfu að halda. Þetta er símaeftirlit fyrst og fremst og fólk er heima hjá sér. Það eru þó allir í okkar umsjá þangað til þeir eru útskrifaðir og hafa náð bata,“ bætir hann við.

Hann segir að það hafi verið viðbúið að smitaðir einstaklingar myndu greinast eftir að landamærin voru opnuð og þegar slíkt gerist megi búast við að viðkomandi smiti sína nánustu.

„Þetta er ekkert áfall. Það var við því að búast að það kæmi smit inn í landið og sem betur fer hefur það gerst í litlum mæli og hefur dreifst lítið út, verður að segja,“ bætir hann við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert