Fyrsti áfangi breikkunar Vesturlandsvegar á Kjalarnesi verður boðinn út á allra næstu dögum, jafnvel fyrir helgina. Þetta staðfestir G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar. Jafnframt verður sótt um framkvæmdaleyfi til Reykjavíkurborgar.
Lengi hefur verið kallað eftir breikkun Vesturlandsvegar enda hafa orðið mörg alvarleg slys á veginum. Nú síðast varð þar banaslys um síðustu helgi.
Um er að ræða breikkun vegarins á um níu kílómetra kafla milli Varmhóla í Kollafirði og vegamóta Hvalfjarðarvegar. Fyrsti áfangi breikkunar verður frá Varmhólum að Vallá á Kjalarnesi, að því er fram kemur á vef Vegagerðarinnar. Á stærstum hluta verður veginum breytt í 2+1 veg. Jafnframt verða gerð þrjú hringtorg, vegtengingum fækkað og lagðir hliðarvegir, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.