Bannað verður að selja eða afhenda án endurgjalds einnota plastvörur á borð við plaströr og einnota hnífapör frá 3. júlí á næsta ári. Þetta er meðal þess sem kveðið er á um í lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, sem samþykkt voru á Alþingi fyrr í vikunni og byggjast á tilskipun Evrópuþingsins og -ráðsins frá því í fyrrasumar.
Undir bannið falla allar vörur á borð við baðmullarpinna, hnífapör, diska, sogrör, hræripinna fyrir drykkjarvörur, prik sem ætluð eru til að festa við blöðrur, matarílát úr frauðplasti og drykkjarílát úr frauðplasti. Þá er skilyrðislaust bann sett við sölu eða afhendingu vara úr plasti sem er niðurbrjótanlegt með oxun, en notkun slíks plasts hefur aukist til muna undanfarin ár. Bannið nær þó ekki til plastvara sem flokkast sem lækningatæki.
Þá er í lögunum einnig kveðið á um að einnota drykkjarílát með tappa eða loki úr plasti megi aðeins afhenda ef lokið er áfast ílátinu á meðan notkun stendur yfir. Þá skulu einnota plastflöskur fyrir drykkjarvörur innihalda lágmarkshlutfall af endurunnu plasti, 25% árið 2025 og 30% frá og með árinu 2030.
Samkvæmt tölum frá árinu 2016 nota Íslendingar um 15.029 tonn af plastumbúðum á ári hverju, og jafngildir það rúmum 40 kílógrömmum á hvert mannsbarn. Aðeins um 42% þess plasts skilaði sér til endurvinnslu árið 2016, en 4,4% í brennslu til orkunýtingar. Áratugi, ef ekki aldir, getur tekið fyrir plast að brotna niður í náttúrunni.