Hafa ekki látið reyna á úrskurð dómara

Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri.
Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri.

Talið er að um 306 atvinnuhúsnæðiseiningar séu nýttar undir búsetu á höfuðborgarsvæðinu. Brunavarnir og öryggisráðstafanir eru sum staðar góðar, en annars staðar ófullnægjandi. 

Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu, segir að atvinnuhúsnæðiseiningar sem notaðar eru fyrir búsetu gætu verið fleiri eða færri. 

„Við höfum skoðað svona íbúðir í atvinnuhúsnæði út frá öryggissjónarmiðum. Þetta eru 306 hús sem við höfum rekið augun í en þau gætu verið fleiri eða færri. Það geta líka verið þarna húsnæði sem uppfylla kröfur, við höfum skoðað sum og önnur ekki, en sum eru alveg til fyrirmyndar,“ segir Jón. 

Jón Viðar segir að slökkviliðið hafi heimild til þess að loka atvinnuhúsnæði sem fólk búi í sé það ekki íbúðarhæft. 

„Við höfum gert þetta töluvert síðastliðin ár og í gegnum tíðina höfum við verið að loka húsnæði sem við höfum fengið upplýsingar um, en við höfum ekki haft mannaflann til þess að kortleggja þetta alveg heldur höfum við verið að vinna eftir ábendingum.“ 

Slökkviliðið skoðaði meðal annars hús að Dalvegi 24 í júní og var íbúum gefinn frestur til þess að yfirgefa húsnæðið, en það þótti óíbúðarhæft og alvarlegar athugasemdir voru gerðar við aðbúnað. 

Í húsinu bjuggu erlendir verkamenn og er húsnæðið í eigu HD verk, sem á einnig húsnæðið við Bræðraborgarstíg 1 sem brann í síðustu viku með þeim afleiðingum að þrír létu lífið. 

HD verk á einnig hús­næði að Dal­vegi 26, Hjalla­brekku 1, Kár­nes­braut 96a þar sem er­lend­ir verka­menn búa og hús­næði við Bræðra­borg­ar­stíg 3, þar sem 134 eru með skráð lög­heim­ili. Jón Viðar segir að fara þurfi fram samtal við byggingarfulltrúann í Kópavogi til að stilla saman strengi varðandi skoðun á öðru húsnæði HD verks í Kópavogi. Byggingarfulltrúinn í Kópavogi vildi ekki tjá sig um málið. 

Atburðarásin öðruvísi þegar um íkveikju er að ræða

Jón Viðar segir að þó að slökkviliðið hafi heimildir til þess að loka atvinnuhúsnæði flækist málið þegar komi að íbúðarhúsnæði. 

„Við berum ákveðnar skyldur samkvæmt lögum og reglugerðum að skoða atvinnuhúsnæði. En þegar kemur til dæmis að húsnæði eins og Bræðraborgarstíg þá er um að ræða íbúðarhúsnæði og við getum í raun og veru ekki skoðað það nema með leyfi eiganda eða forráðamanns. Ef þeir neita okkur um að koma og skoða þurfum við úrskurð dómara, en við höfum aldrei látið reyna á það því þetta er rosalega þungt úrræði. Það þarf að vera liprara umhverfi í kringum þetta.“

Jón Viðar segir erfitt að segja til um það hvort að eldsvoðinn við Bræðraborgarstíg hefði orðið jafn skæður og raunin varð ef eftirlit hafði verið með brunavörnum og fullvissa um að þær væru í lagi. 

„Kröfur varðandi eldvarnir hafa breyst frá því að húsið var byggt. En svo kemur annar vinkill á þetta að lögregla hefur sterkan grun um að það hafi verið kveikt í. Það er voðalega erfitt að vega og meta eldvarnir hússins út frá því að um íkveikju hafi verið að ræða. Atburðarásin sem fer af stað þegar er kveikt í er oft öðruvísi en þegar kviknar í af öðrum ástæðum. En ef menn ramma inn þær breytingar sem þeir gera og vinna með byggingarfulltrúa og umsagnarfulltrúum á það að leiða til þess að öryggisstigið hækki,“ segir Jón Viðar. 

„Það má ekki heldur gleyma því að flestir eru með hlutina algjörlega í lagi og eru til fyrirmyndar. Þegar verið er að tala um hina hliðina á málinu gleymist það svolítið að stór hluti er með hlutina algjörlega upp á tíu. En ég skynja það að það sé vilji hjá öllum þeim sem ég hef rætt við að skoða þetta, hvað sé hægt að gera og reyna að hafa þetta straumlínulagað svo það séu hvergi gloppur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert