Ísland komið af varúðarlista Breta

Breskt stjórnvöld mæla ekki lengur gegn ferðalögum til Íslands.
Breskt stjórnvöld mæla ekki lengur gegn ferðalögum til Íslands. mbl.is/Ómar Óskarsson

Ísland er ekki lengur á lista breska utanríkisráðuneytisins yfir þau lönd sem mælt er gegn ferðalögum til. 

Bresk yfirvöld birtu nú síðdegis lista yfir þau 60 lönd hverra farþegar sem koma til Bretlands verða undanskildir reglunni um tveggja vikna sóttkví. 

Samhliða því birti breska utanríkisráðuneytið annan lista yfir þau ríki sem tekin hafa verið af lista yfir þau lönd sem ekki er mælt með að Bretar ferðist til samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu. 

„Frá 4. júlí er Ísland undanskilið frá ráðum ráðuneytisins um að ferðast ekki erlendis nema af nauðsyn,“ segir á vefsíðu breska ráðuneytisins. 

„Þetta er eitt af verkefnunum núna, að sjá til að við komumst inn sem víðast og það er ánægjulegt að það sé að skila sér,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra. 

„En við þurfum að halda vöku okkar. Í þessu tilfelli hefur það verið sendiráð okkar í London sem hefur skilað góðu starfi. Þó svo að þetta hafi gengið vel hjá okkur þýðir það ekki að þetta gerist sjálfkrafa,“ segir Guðlaugur. 

„Í þessu tilfelli, með Bretland, eru auðvitað miklir hagsmunir undir hjá okkur og sendiráðið unnið ötullega að þessu. Þeir ráða ekki lengur gegn ferðalögum hingað, það er gagnkvæmi, annars vegar eru þeir að opna fyrir okkur og hins vegar breyta þeir ferðaráðum þannig að það ekki mælt gegn því að þeir komi hingað. Þetta er eitt af okkar forgangsmálum, að sjá til þess að við komumst út og ekki síður að ekki sé ráðið gegn ferðum hingað til að ýta undir ferðaþjónustu hérlendis.“

Bretar einn fjölmennasti hópur ferðamanna

Michael Nevin, sendiherra Bretlands á Íslandi, segir að um mikil gleðitíðindi sé að ræða. 

„Í dag bárust þær gleðifréttir að Bretland hefur skilgreint Ísland sem eitt þeirra ríkja sem eru undanþegin almennum ráðleggingum breskra stjórnvalda gegn utanlandsferðum. Þetta ætti að leiða til aukins áhuga ferðamanna frá Bretlandi til Íslands. Í gegnum tíðina hafa ferðamenn frá Bretlandi verið einn fjölmennasti hópur ferðamanna sem koma til Íslands,“ segir Michael. 

„Til vitnis um það frábæra starf sem unnið hefur verið á Íslandi til að kveða niður COVID-19, frá 10. júlí, verða þeir sem ferðast frá Íslandi til Englands undanþegnir 14 daga sóttkví við komuna. Þetta ferðafrelsi verður mikilvæg hvatning fyrir ferðaþjónustuna, atvinnulífið og félagslífið eftir krefjandi tímabil. Þó að við þurfum öll að vera vakandi áfram er þetta verulegt skref fram á við þegar kemur að því að ná tökum á heimsfaraldrinum.”

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert