Mistök voru gerð hjá Icelandair þegar rannsóknarnefnd samgönguslysa var ekki samstundis tilkynnt um alvarlegt flugatvik á Keflavíkurflugvelli í október 2016. Þetta segir Jens Þórðarson, framkvæmdastjóri flugrekstrarsviðs Icelandair.
Fyrsta tilkynning um slysið barst nefndinni morguninn eftir, frá Isavia, en í skýrslu nefndarinnar segir að vegna þess hve seint tilkynning barst hafi ekki verið unnt að tryggja hljóðupptökur hljóðrita vélarinnar af atvikinu, og það hafi haft áhrif á rannsóknina. „Við tilkynntum þetta of seint,“ segir Jens í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.
„Það er einfaldast að segja að verklagsreglur okkar með tilkynningar svona alvarlegra atvika hafi ekki verið nægilega skýrar.“ Brugðist hafi verið við þessu með því að skerpa á verklagsreglum og brýna fyrir áhöfnum og flugleiðsöguþjónustu, flugmönnum og flugumferðarstjórum að tilkynna alvarleg atvik tafarlaust. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem rannsókn yfirvalda gerir athugasemd við hve langan tíma hafi tekið Icelandair að tilkynna um alvarlegt flugatvik. Í skýrslu rannsóknarnefndar samgönguslysa í Noregi um alvarlegt flugatvik vélar Icelandair á Gardermoen-velli í Noregi árið 2002 var bent á að engin tilkynning hefði borist frá Icelandair eftir lendingu í Ósló, heldur hefði vélin haldið áfram til Stokkhólms og þaðan til Keflavíkur áður en íslenskum yfirvöldum hefði verið gerð grein fyrir atvikinu. Segir í þeirri skýrslu að vélin hefði þurft á kyrrsetningu og nákvæmri skoðun að halda strax eftir lendingu í Ósló.