Róbert Marshall hefur ótímabundið verið ráðinn í stöðu upplýsingafulltrúa ríkisstjórnar Íslands. Málið var rætt á ríkisstjórnarfundi í morgun og í kjölfarið gengið frá ráðningunni.
Róbert staðfestir þetta í samtali við mbl.is og segir að ráðning upplýsingafulltrúa ríkisstjórnar sé pólitísk skipun og er ekki skylt að auglýsa hana, frekar en gert er þegar ráðnir eru aðstoðarmenn ráðherra.
„Það hefur bara verið mjög krefjandi og skemmtilegt að takast á við þetta og nú er gagnkvæmur áhugi á að ég haldi þarna áfram,“ segir Róbert við mbl.is. Hann var fyrst ráðinn til þriggja mánaða í miðjum heimsfaraldri 20. mars.
Sjálfur er Róbert fyrrverandi alþingismaður fyrir Samfylkinguna og síðar Bjarta framtíð en hefur starfað við fjallaleiðsögn, þjálfun og útivist undanfarin ár, eins og sagði í tilkynningu þegar Róbert var fyrst ráðinn í starfið. Hann var formaður ungra ungra alþýðubandalagsmanna á yngri árum.
Hann starfaði við fjölmiðla um árabil og var aðstoðarmaður samgönguráðherra áður en hann settist á þing árið 2009. Róbert er fyrrverandi formaður Blaðamannafélags Íslands og var um tíma forstöðumaður fréttasviðs 365. Hann stundaði fiskvinnslu, netagerð og sjómennsku í Vestmannaeyjum og er stúdent frá framhaldsskólanum þar. Á þingi gegndi hann m.a. þingflokksformennsku, formennsku í allsherjarnefnd, formennsku í Íslandsdeild þings Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu og sat í umhverfis- og samgöngunefnd, Þingvallanefnd og Norðurlandaráði.