Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri á höfuðborgarsvæðinu, kom á fund borgarráðs Reykjavíkur í gær til að ræða brunann á Bræðraborgarstíg í síðustu viku, þar sem þrír létu lífið.
Í samtali við Morgunblaðið segir hann að fundurinn hafi fyrst og fremst verið til upplýsingar, en algengt sé að slökkviliðið fundi með sveitarstjórnum í kjölfar bruna. Mikið hefur verið rætt um aðbúnað íbúa hússins og þá staðreynd að 73 einstaklingar höfðu lögheimili í 192 fermetra íbúðareign, þótt ekki hafi svo margir búið í húsinu.
„Ég fann ekki annað en góðan samhljóm og að menn vildu setjast yfir þetta heildstætt en ekki ráðast í bútasaumsaðgerðir,“ segir Jón Viðar. Hann segir að í kjölfar brunans hafi slökkviliðinu borist fjöldi ábendinga frá fólki sem hafi áhyggjur af því húsnæði sem það búi sjálft í. „Fólki er brugðið og vill skoða og rýna í brunavarnir,“ segir Jón Viðar í Morgunblaðinu í dag.