Mikki refur, nafn sem getur bakað vöfflur á laugardögum á undan barnasýningum í Þjóðleikhúsinu en um leið fengið eldri gesti inn í smá púka á kvöldin eftir sýningar.
Sú er hugsunin á bak við nafnið á nýjum vínbar og kaffihúsi sem Dóri DNA er að opna í ágúst, einmitt í húsinu á móti Þjóðleikhúsinu á Hverfisgötu 18, þannig að það er ekki langt að fara þegar fólk á erindi á borð við ofangreind.
Dóri hefur verið að leigja skrifstofur á efri hæð hússins árum saman og þegar veitingahúsnæði losnaði stökk hann á það, segir hann við mbl.is. Húsgagnaverslunin NORR11, sem hefur einnig um árabil verið í bakhúsinu á Hverfisgötu 18A, færir sig nú í sömu svipan yfir á neðri hæðina á Hverfisgötu 18, þannig að húsgagnaverslunin og Mikki refur verða í samliggjandi rými. Þar hefur ekki verið veitingarekstur í húsinu síðan Bar Ellefu leið, en hann lokaði vorið 2018. Bæði húsin eru í eigu Ingibjargar Pálmadóttur.
Vínbarinn er auðvitað ekki að nokkru leyti formlega bundinn við starfsemi Þjóðleikhússins þó að samgangur þarna á milli sé falleg pæling. Það þarf ekki að vera mikill leikhúsmaður eins og Dóri til þess að vita að hinn upphaflegi Mikki refur á lögheimili í leikhúsinu. Staðurinn sjálfur verður einfaldlega blanda af kaffihúsi og vínbar, þar sem boðið verður upp á óiðnframleidd vín, svo ekki sé sagt náttúruvín, og sömuleiðis gott „þriðju bylgju kaffi“.
Dóri vonar að hann geti verið með opið til 1 á fimmtudögum, föstudögum og laugardögum, alla vega þegar landslög eru hætt að kveða á um lokun klukkan ellefu vegna heimsfaraldurs. „Við opnum síðan bara í ágúst og tökum franska stílinn á þetta, þar sem við höfum bara allt þetta nauðsynlega en ekki eitthvert konsept sem er svo sniðugt að fólk gubbar. Bara frábært kaffi og frábært vín og frábært með því,“ segir Dóri.
Dóri hefur ekki áhyggjur af því að vera að ryðjast inn á mettan markað á Hverfisgötunni, en mikið líf hefur færst í götuna á undanförnum árum. Hann tekur fyrir að hann sé að fara í hart við þá sem fyrir eru. „Nei, nei, nei. Þau eru til dæmis miklir vinir okkar á Röntgen. Það er pláss fyrir alla í Reykjavík. Eða öll dýrin í skóginum eru vinir, mér var að detta það í hug líka,“ segir Dóri.
Dóri á líka vini ofar á Hverfisgötu, nefnilega á númer 50 og 78, þar sem heitir Húrra Reykjavík, annars vegar kvenna og hins vegar karla. Enn meiri nánd færist í sambandið í september, þegar Húrra flytur í umrætt bakhús á Hverfisgötu 18A og sameinar þar með kvenna- og karlaverslanir sínar undir eitt og sama þak. Meira um það hér.