Veitingastaðurinn Messinn opnaði dyr sínar á ný í gær eftir að nýr eigandi keypti reksturinn. Fyrsti dagurinn gekk, að sögn eigandans mjög vel og kúnnarnir streymdu að.
Annað var uppi á teningnum í dag. Þegar staðurinn var opnaður um kvöldmatarleytið höfðu á annan tug mótmælenda komið saman fyrir utan staðinn og vísuðu fólki frá. Vegna mótmælanna þurfti að loka staðnum og var enginn afgreiddur þetta kvöld.
Fólkið var mætt til að mótmæla illri meðferð fyrri eiganda staðarins sem sakaður hefur verið um að greiða laun undir kjarasamningi, líkt og ítarlega hefur verið greint frá í Stundinni. Stefndi Efling meðal annars Messanum fyrir vangoldin laun þriggja starfsmanna og náðist dómsátt í apríl þar sem fyrirtækið greiddi um þrjár milljónir króna í vangoldin laun.
Tómas Þóroddsson, nýr eigandi Messans, segir í samtali við mbl.is að hann hafi skilning á reiði fólksins en vildi óska þess að hún beindist í rétta átt, að fyrri eiganda. Tómas var sjálfur ekki á staðnum þegar mótmælendurnir létu sjá sig og gafst því ekki færi á að ræða við þá. „Ég veit eiginlega ekki hvað er hægt að gera í þessu en það er kannski ekki mitt að siða fólk til,“ segir Tómas spurður hvort hann verði tilbúinn að ræða við fólkið á morgun, ef ske kynni að mótmælendur láti sjá sig á ný.
Tómas segir að mótmælin hljóti að koma til með að skaða orðspor staðarins, sem sé hálfleiðinlegt enda sé hann með flekklausan feril í rekstri. Spurður hvort hann hafi vitað af deilum fyrri eigenda og starfsfólks, segir Tómas að hann hafi ekkert vitað þegar viðræður um kaupin hófust en þó fengið veður af því þegar umfjöllun Stundarinnar birtist.