Rússneskar sprengjuflugvélar á flugi við Ísland

Ítalskar F-35-orrustuþotur í Keflavík í síðasta mánuði.
Ítalskar F-35-orrustuþotur í Keflavík í síðasta mánuði. Ljósmynd/Ítalski flugherinn

Í fyrrinótt komu óþekktar flugvélar inni í loftrýmiseftirlitssvæði Atlantshafsbandalagsins hér við land sem hvorki höfðu tilkynnt sig til flugumferðarstjórnar né voru með ratsjársvara í gangi. Í samræmi við vinnureglur Atlantshafsbandalagsins flugu orrustuþotur ítalska flughersins, sem eru hér á landi við loftrýmisgæslu, til móts við vélarnar frá Keflavíkurflugvelli.

Vélarnar voru auðkenndar suður af Stokksnesi. Þarna reyndust á ferðinni langdrægar rússneskar sprengjuflugvélar sem voru innan loftrýmiseftirlitssvæðis Atlantshafsbandalagsins en utan íslenskrar lofthelgi.

Ekki er tekið fram hvaða gerðar rússnesku vélarnar voru, en langdrægar sprengjuflugvélar af gerðinni Tupo­lev 95, sem kallaðar eru Birn­ir, hafa ítrekað komið nálægt Íslandi á síðustu áratugum.

Loftrýmisgæsla Atlantshafsbandalagsins við Ísland hefur staðið yfir síðan í byrjun júní. Verkefnið heyrir undir svæðisstjórnstöð NATO í Uedem, Þýskalandi (Combined Air Operations Center) en Landhelgisgæsla Íslands ber ábyrgð á framkvæmdinni hérlendis, í samvinnu við Isavia. Ítalska flugsveitin er með sex F-35-orrustuþotur hér á landi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert