Rafmagnsframleiðsla liggur niðri að miklu leyti í Sultartangavirkjun í Þjórsá eftir að fylla féll í heilu lagi úr berginu vestan við gömlu brúna ofan í frárennslisskurð í gær.
Í samtali við mbl.is segir Ragnhildur Sverrisdóttir, upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar, að skriðan hafi orðið til þess að stærðarinnar bylgja reið yfir stöðvarhúsið og sló hún út annarri túrbínunni, vél 1. Vél 2 sló hins vegar ekki út, en hún er keyrð á litlu álagi meðan ástandið varir. Unnið var að því í dag að moka upp úr skurðinum og segir Ragnildur viðbúið að rekstur verði með eðlilegum hætti frá morgundeginum. Fyrst var greint frá málinu í kvöldfréttum RÚV.
Samkvæmt upplýsingum frá Landsneti hafði bilunin hvorki áhrif á afhendingu rafmagns frá Landsvirkjun né á flutningskerfi Landsnets.
Gömlu brúnni var lokað er þetta gerðist en opnað fyrir umferð um nýja brú, sem er nær fullgerð og stendur aðeins ofar.