Stálpaður Samson kominn heim

Dorrit Moussaief og hundurinn Samson, sem er klónaður eftir Sámi.
Dorrit Moussaief og hundurinn Samson, sem er klónaður eftir Sámi. Ljósmynd/Twitter

Römm er sú taug er rekka dregur föðurtúna til, sagði maðurinn, og það sama gerir hún við hunda. Ólafur Ragnar Grímsson fyrrverandi forseti tilkynnti í morgun á twittersíðu sinni að Samson væri kominn heim „playing in his father's garden“.

Samson var klónaður í Bandaríkjunum í október í fyrra eftir erfðaefni Sáms, sem var hundur forsetahjónanna um langt skeið, þannig að föðurtún er túlkun undirorpið. Nafnið Samson virðist vísa til þess að hann sé eins einhvers konar afkomandi Sáms en á sama tíma kann Ólafur vel að vera að vísa til þess að hann sjálfur sé pabbi hundsins, enda eiginlegur eigandi garðsins. Sámur heitinn lék sér síðan líka sjálfur í sama garði og á þar með sjálfur ákveðið tilkall til hans.

Það hefur verið nokkurt ferli að koma klóninu heim til Íslands, enda bættist heimsfaraldur ofan á venjubundið vesen sem því fylgir að flytja dýr yfir landamæri. Samson þurfti að fara í sóttkví eins og aðrir. Nú er hann þó kominn heim og á mynd sem forsetinn fyrrverandi birtir sést Dorrit Moussaieff eiginkona hans leika við hundinn, sem er stálpaðri en á fyrri myndum, orðinn níu mánaða.

Uppfært: Samson er kominn á Esjuna, langþráður draumur að rætast. 



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert