Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, hefur lagt blessun sína yfir áform íslenskra stjórnvalda um að koma á fót ferðaábyrgðasjóði til þess að lána ferðaskrifstofum fyrir endurgreiðslu til viðskiptavina sem fengu ekki að fara í pakkaferðirnar sínar.
ESA tekur afstöðu til þess þegar EES-ríki ráðast í aðgerðir sem fela í sér ríkisaðstoð og þá er metið hvort aðstoðin standist reglur sem ríkin hafa undirgengist með því að vera aðilar að EES-samningnum.
Áformin um ferðaábyrgðasjóðinn eru sögð að fullu í samræmi við EES-samninginn og því eru engar athugasemdir gerðar við þau. RÚV greindi frá úrskurðinum en hann má lesa hér.
Ferðaábyrgðasjóðurinn var samþykktur á Alþingi fyrir þinghlé og mun bjóða ferðaskrifstofum í erfiðri stöðu lán með ríkisábyrgð á mjög hagstæðum kjörum til þess að mæta meiriháttar endurgreiðsluskyldu vegna niðurfallinna pakkaferða. Gert er ráð fyrir að sjóðurinn muni hafa um 4,5 milljarða íslenskra króna heimild til ráðstöfunar.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ferðamálaráðherra sagði við Morgunblaðið í júní að ferðaábyrgðasjóður væri um leið vísir að nýju tryggingakerfi fyrir ferðaskrifstofur hér á landi. „Þetta er sjálfstætt mál en þetta væri samt fyrsta skrefið í að fara úr þessu tryggingakerfi ferðaskrifstofa sem nú er við lýði og fara yfir í að búa til sjóð með sambærilegt hlutverk og þekkist í Danmörku og Noregi. Það tekur auðvitað tíma að byggja upp slíkan sjóð og það væri hlutverk sem við þyrftum að smíða í samráði við aðila en þetta væri fyrsta skrefið í því. Þetta er sami þankagangur,“ segir ráðherra.