Felldur á harðahlaupum og handleggsbrotnaði

Lögreglan er með það til skoðunar hvort einstaklingur sem varð þess valdandi að lögreglumaður handleggsbrotnaði í miðbænum í gærkvöldi verði kærður. Viðkomandi brá fyrir lögreglumann fæti sem var á hlaupum á eftir öðrum einstakling. 

„Við náttúrulega líðum þetta ekki. Hann náðist sem betur fer, sá sem gerði þetta, og það verður tekin af honum skýrsla. Þetta er ofbeldi gagnvart lögreglumönnum og það eru viðurlög við því,“ segir Jóhann Karl Þórisson aðstoðaryfirlögregluþjónn í Reykjavík. 

Hann segir einstaklinginn þó ekki í haldi lögreglu þessa stundina, heldur var hann einfaldlega tekinn höndum, rætt við hann, en síðan sleppt. Enn á eftir að ræða betur við hann.

Jóhann segir að lögreglumaðurinn hafi handleggsbrotnað á Ingólfsstræti við Bankastræti á milli ellefu og tólf í gærkvöldi. Hann var að hlaupa á eftir einstaklingi til að handsama hann þegar einhver brá fyrir hann fæti með þeim afleiðingum að lögreglumaðurinn féll fram fyrir sig. Að sögn Jóhanns var hann á harðahlaupum, þannig að fallið var hart. Talið er að hann sé handleggsbrotin en niðurstöður úr röntgenmyndatöku eiga eftir að skera úr um það.

Mikill fjöldi fólks safnaðist saman á Bankastræti og í nærliggjandi götum eftir ellefu í gærkvöldi, eins og verða vill þessa dagana. Skemmtistaðir loka ellefu. Lögreglubílar voru staddir á miðju Bankastræti þegar stöðum var lokað og lögregluþjónar reyndu að stilla til friðar á milli fólks sem átti í útistöðum, en myndbandið að ofan er frá Bankastræti upp úr ellefu í gærkvöldi.

Rætt verður við viðkomandi.
Rætt verður við viðkomandi. mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert