Dómsmálaráðuneytið greinir frá því að fangelsinu á Akureyri verði lokað. Fangelsið á Akureyri sé minnsta rekstrareining Fangelsismálastofnunar en þar eru vistaðir 8-10 fangar að jafnaði. Með lokun fangelsisins sé hægt að nýta fjármuni á mun betri hátt.
Fimm starfsmenn eru fastráðnir í Fangelsinu á Akureyri og hefur Fangelsismálastofnun lýst því yfir að þeim verði boðið starf í fangelsum ríkisins.
Þetta kemur fram á vef Stjórnarráðsins.
Þar segir, að ein tillaga starfshóps dómsmálaráðherra til aðgerða sem stytta eigi boðunarlista til afplánunar refsinga hafi verið að taka tillögur Fangelsismálastofnunar ríkisins um betri nýtingu fjármagns til málaflokksins til nánari skoðunar.
„Ljóst er að rekstrarumhverfi fangelsismála hefur kallað á strangt aðhald. Með tilkomu fangelsisins á Hólmsheiði 2016 fjölgaði rýmum um 30 en fangelsiskerfið hefur þó ekki haft aðstöðu til að fullnýta þau pláss sem til eru en 1. júní sl. voru 44 laus afplánunarrými. Meðaltalsfjöldi afplánunarfanga á dag í fangelsum ríkisins hefur þannig að mestu staðið í stað síðustu ár þrátt fyrir fjölgun rýma sem skýrist af því að ekki hefur verið nægt fjármagn til að nýta þau að fullu. Ljóst er að mikilvægt er að nýta fjármagn til málaflokksins betur en slíkt gæti haft þó nokkur áhrif á boðunarlistann,“ segir ráðuneytið.
Bent er á, að fangelsið á Akureyri sé minnsta rekstrareining Fangelsismálastofnunar en þar eru vistaðir 8-10 fangar að jafnaði.
„Með lokun fangelsins er hægt að nýta fjármuni á mun betri hátt en kostnaður við hvert fangapláss á Litla-Hrauni og á Hólmsheiði er mun lægri en á Akureyri vegna samlegðaráhrifa við önnur fangelsi. Ávinningurinn af því að loka fangelsinu á Akureyri er margþættur. Boðunarlisti og fyrningar refsinga geta lækkað, betri nýting á afplánunarrýmum og unnt verður að mæta hagræðingarkröfum á milli ára. Fangelsið á Akureyri er í sama húsnæði og embætti lögreglunnar á Norðurlandi eystra. Um nokkurt skeið hefur verið óskað eftir stækkun á aðalstöðvum lögreglunnar á Akureyri en með lokun á Fangelsinu getur það húsnæði nýst til að mæta húsnæðisvanda lögreglunnar,“ segir í tilkynningunni.
Þá segir, að fimm starfsmenn séu fastráðnir í Fangelsinu á Akureyri og hafi Fangelsismálastofnun lýst því yfir að þeim verði boðið starf í fangelsum ríkisins.
Loks er bent á að um 75% þeirra sem afplána refsivist í fangelsinu á Akureyri séu af stórhöfuðborgarsvæðinu.