Margar hættur þótt engin sé eldvirknin

Margar hættur geta stafað af hrinunni á Tjörnesbelti þrátt fyrir …
Margar hættur geta stafað af hrinunni á Tjörnesbelti þrátt fyrir að eldvirkni sé engin. Kort/Veðurstofa Íslands

Margar hættur geta stafað af jarðskjálftahrinunni sem staðið hefur yfir í Eyjafjarðaráli, úti af Gjögurtá, frá 19. júní þótt engin eldvirkni sé á svæðinu. Þetta segir Sigurdís Björg Jónasdóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.

Grjóthrun og flóðbylgjur geta fylgt stórum skjálftum og þá þurfi fólk að huga að hefðbundnum jarðskjálftavörnum, svo sem að hengja ekki myndir fyrir ofan rúm og forðast að hafa lausamuni í hillum.

Yfir tíu þúsund skjálftar hafa riðið yfir frá því hrinan hófst en í dag mældust tveir skjálftar um þrír að stærð, 2,9 og 3,2 nánar tiltekið, og eru þeir stærstu skjálftarnir á svæðinu í nokkra daga. Skjálftarnir fundust í Ólafsfirði en engin tilkynning hefur borist Veðurstofunni frá næsta bæ við upptökin, Siglufirði. „Kannski eru menn bara orðnir vanir skjálftunum þar,“ segir Sigurdís.

Skjálftarnir stafa af svokölluðum sniðgengishreyfingum í sprungum (misgengi) neðansjávar en beltið nefnist Tjörnesbelti. Hreyfingar sem þessar eru algengar og skjálftahrinur því tíðar, þótt sjaldgæft sé að þær vari jafnlengi og þessi sem hefur nú staðið í að verða þrjár vikur. Eldvirkni var á svæðinu fyrir tugþúsundum ára, en ekki í dag og þarf því ekki að búa sig undir eldgos. 

Sigurdís segir að jafnan deyi skjálftahrinurnar hægt og rólega út, skjálftar minnki og lengist á milli þeirra þar til skjálftarnir hætta. Eins og staðan sé þó ekkert sem bendi til þess að hrinan sé senn á enda og því þurfi fólk að vera búið undir stóra skjálfta á borð við þann sem reið yfir á sumarsólstöðum og var 5,8 að stærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert