Skýrslu um þróun norræns samstarfs á sviði utanríkis- og öryggismála var afhend utanríkisráðherrum Norðurlandanna í dag, en skýrsluna skrifaði Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra. Þetta kemur fram á vef Stjórnarráðsins.
Þann 30. október 2019 ákváðu utanríkisráðherrar Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar, að fela Birni Bjarnasyni að skrifa óháða skýrslu þar sem gerðar yrðu tillögur um þróun samstarfs Norðurlandanna á sviði utanríkis- og öryggismála. Þá voru tíu ár liðin síðan Thorvald Stoltenberg, fyrrverandi utanríkisráðherra Noregs, var falið að skrifa sambærilega skýrslu.
Í skýrslunni leggur Björn fram fjórtán tillögur sem skiptast í þrjá meginkafla.
Fyrsti kafli snýr að loftslagsbreytingum, þar sem fjallað er m.a. um aukna sameiginlega stefnumörkun á sviði loftslagsmála, loftslagsöryggi og þróunarmál, og hafrannsóknir til að minnka áhrif loftslagsbreytinga.
Þá er lagt til að Norðurlöndin myndi sameiginlega afstöðu til þátttöku Kína á norðurslóðum.
Annar kafli snýr að fjölþáttaógnum og netöryggi, þar sem mælt er með því að Norðurlönd móti sameiginlegan huglægan og pólitískan skilning á helstu fjölþáttaógnum, svo hægt sé að takast á við þær. Þar að auki þurfi að koma á fót sameiginlegum reglum til að tryggja lýðræði í netheimum, og hefja til samstarfs á sviði nýrrar tækni og varna gegn netárásum.
Skýrslan tekur einnig mið af kórónuveirufaraldrinum, þar sem hann sé líklegur til að hafa áhrif á norrænt og alþjóðlegt samstarf í framtíðinni. Skýrslan leggur til að dregið verði af reynslunni af faraldrinum til að bæta viðbúnað vegna heimsfaraldra.
Þriðji kafli fjallar um leiðir til að efla fjölþjóðasamstarf og virðingu fyrir alþjóðareglum. Þar leggur Björn m.a. til að alþjóðastofnannir verði nútímavæddar og á þeim verði gerðar umbætur, og hlutverk sendiráða og fastanefnda, sem og rannsókna á sviði utanríkis- og öryggismála, verði eflt.
Þá skuli Norðurlönd þróa samnorræna utanríkisstefnu, og hefja stafræna kynningu á norrænum gildum.