Skjálfti 3,5 að stærð skammt frá Gjögurtá

Jarðskjálftakerfi Veðurstofu Íslands hefur staðsett yfir 10.000 skjálfta á svæðinu …
Jarðskjálftakerfi Veðurstofu Íslands hefur staðsett yfir 10.000 skjálfta á svæðinu síðan hrinan hófst þann 19. júní. Kort/Veðurstofa Íslands

Jarðskjálfti af stærðinni 3,5 varð 15,2 kílómetra norðvestur af Gjögurtá klukkan 18:34 í kvöld. Er þetta þriðji stóri jarðskjálftinn á svæðinu í dag því tveir skjálftar, af stærðinni 2,9 og 3,2, urðu þar á fjórða tímanum í dag.

Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands hafa nokkrar tilkynningar borist frá Siglufirði og Ólafsfirði um að skjálftinn hafi fundist.

Frá því að jarðskjálftahrinan á svæðinu hófst 19. júní hefur sjálfvirkt jarðskjálftakerfi Veðurstofunnar staðsett yfir 10.000 skjálfta.

Í athugasemdum jarðvísindamanns á Veðurstofu Íslands segir:

„Í dag kl 18:34 varð jarðskjálfti af stærð 3,5 um 15 km NV af Gjögurtá. Annar skjálfti af stærð 3,2 varð fyrr um daginn kl. 15:40. Tíu mínútum áður varð jarðskjálfti á sömu slóðum, 2,9 að stærð. Tilkynningar hafa borist um að skjálftarnir fundust á svæðinu.

Jarðskjálftahrinan er enn yfirstandandi. Frá því að hrinan hófst 19. júní hefur sjálfvirkt jarðskjálftakerfi Veðurstofunnar staðsett yfir 10.000 skjálfta. Þrír skjálftar yfir 5 að stærð hafa mælst í hrinunni, sá stærsti á sunnudagskvöldið kl. 19:07 af stærð 5,8 rúma 30 km NNA af Siglufirði. Aðrir skjálftar yfir 5 að stærð voru 5,6 og 5,4 að stærð og voru staðsettir rúma 20 km NA af Siglufirði.

Enn mælist mikið af minni skjálftum á svæðinu og áfram eru líkur á því að fleiri stærri skjálftar muni verða.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert