Strandaglópar í Vestmannaeyjum

Hekla (t.v.) og Eydís (t.h.) í Herjólfsdal.
Hekla (t.v.) og Eydís (t.h.) í Herjólfsdal. Ljósmynd/Aðsend

Vinkonurnar Eydís Líf Ágústsdóttir og Hekla Ósk Beck eru á meðal þeirra sem eru fastar í Vestmannaeyjum vegna verkfalls hluta starfsmanna Herjólfs sem varð til þess að öllum siglingum upp á land var aflýst. 

Eydís og Hekla komu til Eyja í gær og ætluðu sér einungis að vera eina nótt í Eyjum og halda svo ferðalagi sínu um landið áfram. 

„Við fréttum þetta bara í morgunmatnum á hótelinu en við vorum með ferðalag planað,“ segir Eydís. Þær vinkonur voru þó ekki búnar að bóka aðra gistingu. 

„Við ætluðum bara að stoppa hérna eina nótt. Þetta átti að vera byrjunin á ferðalaginu.“

Sædýrasafn og sund

Þær segja aðspurðar að þær séu nokkurn veginn búnar að sjá það sem hægt sé að sjá í Vestmannaeyjum og séu nú að reyna að finna sér eitthvað að gera. 

„Við erum búnar að fara á sædýrasafnið og í sund í dag,“ segir Hekla. 

Verkfallinu lýkur á miðnætti og því komast stelpurnar upp á land að nýju á morgun og geta haldið ferðalaginu áfram sem þær stefna á að ljúka á fimmtudag eða föstudag. 

Spurðar hvort þær verði varar við marga aðra strandaglópa í Heimaey segir Eydís:

„Við þekkjum enga en við höfum séð fólk sem var með okkur á hótelinu og er hérna enn þá  sem ætlaði að fara í dag.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert