Fyrstu kartöflur á markað

Hjalti Egilsson með kartöfluuppskeru dagsins.
Hjalti Egilsson með kartöfluuppskeru dagsins. Ljósmynd/Halldóra Hjaltadóttir

„Hin seinni ár hafa menn oft byrjað um þetta leyti. Þetta eru fljótsprottnar premier-kartöflur sem við ræktum undir plasti,“ segir Hjalti Egilsson, kartöflubóndi á Seljavöllum í Hornafirði. Hann tók í gær upp fyrstu kartöflurnar til að senda á markað á höfuðborgarsvæðinu.

Hann tók upp þrjú tonn þennan fyrsta dag. „Við tókum aðeins upp fyrir heimamarkað í síðustu viku en erum nú að byrja að taka upp fyrir þéttbýlið. Við sendum það til Reykjavíkur á morgun [í dag] og því verður dreift í verslanir á fimmtudag,“ segir Hjalti. Hann reiknar með að geta tekið upp gullauga seinnihluta næstu viku.

Hjalti segir að aðstæður til kartöfluræktar hafi verið ágætar það sem af er sumri. Maí og júní hafi komið nokkuð vel út, verið hlýtt og rigning eins og eftir pöntun. Veit hann ekki annað en að staðan sé svipuð hjá öðrum kartöfluræktendum og von geti verið á sendingum af kartöflum á markaðinn víðar að á næstu dögum.

Uppskeruhorfur eru góðar en af fenginni reynslu þykir Hjalta vissara að fagna ekki uppskeru fyrr en hún er komin í hús. helgi@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert