Óheimilt er að skerða sérstaka framfærsluuppbót á þeim forsendum að bótaþegi hafi búið hluta starfsævi sinnar erlendis. Þetta er niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur, sem felldi í síðasta mánuði dóm í máli konu gegn Tryggingastofnun ríkisins vegna þeirrar framkvæmdar stofnunarinnar.
Konan, sem er 61 árs gömul, hefur verið metin með hámarksörorku (75%) frá 1. mars 2011. Hún er íslenskur ríkisborgari, fædd og uppalin hér á landi en bjó tímabundið í Danmörku. Í samræmi við lög um almannatryggingar á fólk rétt á fullum bótum hafi það búið 40 ár á Íslandi milli 16 og 67 ára aldurs, en hafi það búið styttra fær það bætur í hlutfalli við búsetutímann. Fær konan því 78,5% af fullum örorkulífeyri á Íslandi.
Um það var ekki deilt, heldur heimild stofnunarinnar til að beita sömu skerðingum á svokallaða framfærsluuppbót, sem veitt er þeim sem ekki geta framfleytt sér á strípuðum örorkubótum. Benti konan á að í lögum um félagslega aðstoð væri engin heimild veitt til slíkrar skerðingar heldur aðeins skerðingar á grundvelli tekna og eigna. Markmið og tilgangur löggjafans væri bersýnilega að tryggja öllum lífeyrisþegum lágmarksframfærslu.
Í dómnum er tekið undir þetta sjónarmið og komist að þeirri niðurstöðu að skerðingar, sem kveðið er á um í reglugerð, eigi sér ekki stoð í lögum. Tryggingastofnun fór fram á frávísun og hélt því meðal annars fram að 20 ára hefð hefði skapast fyrir framkvæmdinni. Því hafnaði héraðsdómur. „Íþyngjandi inngrip í rétt borgaranna sem skortir lagastoð geta ekki fengið réttarheimildargildi sem venja þrátt fyrir langvarandi framkvæmd.“
Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalagsins, er að vonum ánægð með niðurstöðuna. „Þeta er áfangasigur og gríðarlega mikilvæg niðurstaða fyrir hundruð manna,“ segir Þuríður.
Tryggingastofnun hefur til 17. júlí til að áfrýja dómnum en ekki liggur fyrir hvort það verður gert. Standi niðurstaða héraðsdóms er ljóst að málið hefur fordæmisgildi fyrir fleiri einstaklinga og viðbúið að endurgreiða þurfi þeim sem hafa fengið skertar bætur á sömu forsendum. Slíkar skerðingar næðu að öllum líkindum fjögur ár aftur í tímann, en það er almennur fyrningarfrestur krafna.