Herjólfur sigldi strax eftir miðnætti í nótt er sólarhringsverkfalli félagsmanna í Sjómannafélagi Íslands lauk. Byrjað var að lesta skipið klukkan 00:01 og lagði Herjólfur frá bryggju í Vestmannaeyjum um hálfeitt. Einhverjir komust ekki með skipinu þar sem það var fullt af farþegum og bílum að sögn fréttaritara mbl.is í Vestmannaeyjum sem fylgdist með.
Siglingar Herjólfs milli lands og Eyja lágu niðri í gær vegna verkfalls félagsmanna í Sjómannafélagi Íslands (SÍ) sem stóð yfir í sólarhring. „Verkfall á Herjólfi er grafalvarlegt mál fyrir samfélagið allt í Eyjum,“ sagði Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri Vestmannaeyja, við mbl.is í gær.
Stjórn Herjólfs ohf. fundaði í gær og ákvað að loknum fundi að bjóða fulltrúum Sjómannafélags Íslands og fulltrúum starfsmanna Herjólfs hjá Sjómannafélaginu á fund í dag til að reyna að finna mögulega lausn á kjaradeilunni. Fundurinn hefst klukkan 11.
Herjólfur mun ekki sigla á meðan vinnustöðvanir standa yfir en frekari verkföll hafa verið boðuð. Önnur vinnustöðvun er boðuð eftir viku, frá miðnætti 14. júlí, og mun hún standa yfir í tvo sólarhringa og þriðja vinnustöðvunin verður svo að óbreyttu frá miðnætti 28. júlí og á hún að standa yfir í þrjá sólarhringa.
21 í áhöfn Herjólfs er félagsmaður í SÍ og var nýlega haft eftir Bergi Þorkelssyni, formanni félagsins, í 200 mílum á mbl.is að eftir að Vestmannaeyjabær tók við starfsemi Herjólfs af Eimskip hafi kjarasamningur ekki verið undirritaður við SÍ heldur sjómannafélagið Jötun, sem á höfuðstöðvar í Eyjum. Áhöfn Herjólfs hafi starfað eftir kjarasamningum við SÍ áður en Vestmannaeyjabær tók við starfseminni.
„Krafan sem er uppi nú, að því er okkur virðist, er sú að það verði horfið frá því að vera með þrjár áhafnir og farið í fjórar sem þýðir að vinnuframlagið fer úr 100% í 75%,“ sagði Guðbjartur Ellert Jónsson, framkvæmdastjóri Herjólfs, í samtali við mbl.is í gær um kröfur SÍ fyrir félagsmenn á Herjólfi. „Það er bara 25% launahækkun að lágmarki. Það er algjör kúvending á skipulagi félagsins,“ sagði hann.
Sjómannafélagið Jötunn og SÍ kölluðu bæði eftir því að semja við Herjólf í lok árs 2019 og segir Guðbjartur að sjónarmið SÍ hafi verið tekin gild en ákveðið hafi verið að semja við Jötun vegna þess að félagið sé stéttarfélag með vinnusvæði í Eyjum, rétt eins og Herjólfur sem er í eigu Vestmannaeyjabæjar og hefur lögheimili þar.
Samtök atvinnulífsins kröfðust þess fyrir hönd Herjólfs að vinnustöðvunin yrði dæmd ólögmæt en félagsdómur hafnaði þeirri kröfu í fyrrakvöld og því hófst sólarhringsvinnustöðvunin á miðnætti í fyrrinótt.