Íslensk stjórnvöld hafa lýst yfir áhyggjum sínum vegna ákvörðunar bandarískra stjórnvalda um að fella úr gildi landvistarleyfi erlendra stúdenta, bæði í samtali við sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi og í samskiptum sendiráðs Íslands í Washington við bandarísk stjórnvöld. Þetta staðfestir María Mjöll Jónsdóttir, deildarstjóri hjá utanríkisráðuneytinu í samtali við mbl.is
Á mánudaginn greindi mbl.is frá ákvörðun bandaríska stjórnvalda um að fella úr gildi landvistarleyfi erlendra stúdenta sem stunda þar nám ef allir áfangar sem þeir eru skráðir í verða kenndir í fjarnámi vegna kórónuveirufaraldursins.
Ákvörðun þessi kemur með til að hafa áhrif á nokkurn fjölda námsmanna sem leggja stund á nám í Bandaríkjunum. Flestir framhalds- og háskólar í Bandaríkjunum eiga enn eftir að gefa það út hvernig námi verður háttað þegar haustönn hefst.
María Mjöll segir að íslensk stjórnvöld hafi verið í samráði við bandarísk stjórnvöld um gagnkvæmar tilslakanir á ferðatakmörkunum Bandaríkjanna og Schengen-ríkjanna fyrir ákveðna hópa. Hún segir að bandarískir námsmenn og fleiri hópar sem sækja til íslands í brýnum erindagjörðum fái þegar undanþágur frá ferðatakmörkunum.
Mbl.is greindi frá því í gær, þriðjudag, að mikil óvissa ríki í alþjóðastarfi háskóla um heim allan vegna kórónuveirunnar. Fjöldi samstarfsskóla Háskóla Íslands hafa, til að mynda, ákveðið að taka ekki á móti neinum skiptinemum á haustönn, og ferðatakmarkanir hafa ollið því að mikil röskun hefur verið á áætlunum nemenda sem hygðust stunda nám erlendis á haustönn.