Guðlaug Líney Jóhannsdóttir, formaður Flugfreyjufélags Íslands, segir gott að afstaða félagsmanna í garð kjarasamnings við Icelandair sé komin á hreint.
Félagsmenn FFÍ felldu í dag nýjan kjarasamning við Icelandair sem samninganefndir beggja aðila skrifuðu undir hjá ríkissáttasemjara 25. júní.
Kjörsókn var 85,3%. Alls greiddu 72,65% atkvæði gegn samningnum. 26,46% kusu með samningnum. Niðurstaða atkvæðagreiðslunnar var þannig heldur afgerandi.
„Með niðurstöðu kosninganna erum við með skýra afstöðu okkar félagsmanna. Þetta var afgerandi. Það gefur okkur vísbendingu um það að það hefur verið of langt gengið í þessu hagræðingarkröfum,“ segir Guðlaug í samtali við mbl.is.
„Eftir að kosning hófst var þetta bara í höndum félagsmanna.“
Boðað hefur verið til fundar hjá ríkissáttasemjara klukkan 1 á föstudag.
„Við mætum bara með ríkan samningsvilja og tilbúin í þetta,“ segir Guðlaug.