Lögmaður Landssambands lögreglumanna telur lögfræðiálit sem núverandi ríkislögreglustjóri aflaði fái ekki staðist og vinnur að öðru lögfræðiáliti því til andmæla.
Þetta segir Jón Bjartmarz, yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra, í samtali við mbl.is. Greint var frá því í kvöldfréttum RÚV að Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri hygðist vinda ofan af ákvörðun forvera síns í starfi, Haralds Johannessen, um samninga sem gerðir voru við níu yfirlögregluþjóna um að færa fasta yfirvinnutíma þeirra inn í grunnlaun, sem gefur þeim þar af leiðandi aukin grunnlaun.
Samkvæmt lögfræðiálitinu, sem unnið var af Forum lögmönnum, hafði Haraldur ekki heimild til að skuldbinda lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins og að samningarnir hafi ekki stoð í lögum og stofnanasamningi ríkslögreglustjóra og Landssambands lögreglumanna og að vegna þess að þeir byggi ekki á lögmætum sjónarmiðum séu þeir ógildanlegir.
„Lögmaður Landssambands lögreglumanna telur að það fái ekki staðist, þetta álit og við munum andmæla því,“ segir Jón í samtali við mbl.is.
Þá bendir hann á að bæði dómsmála-og fjármálaráðherra hafi staðfest að Haraldur hafi haft heimild til þess að gera samningana.
„Ríkislögreglustjóri svaraði þeim spurningum og vangaveltum sem ég var með og af hans skýringum er ljóst að hann hafði fulla heimild til þessara ákvarðana,“ var haft eftir Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra í viðtali um málið í nóvember á síðasta ári. Þá segir í svari fjármálaráðherra við fyrirspurn Ólafs Ísleifssonar, þingmanns Miðflokksins, vegna málsins að allir forstöðumenn stofnana ríkisins fari með fyrirsvar um réttindi og skyldur starfsmanna sinna og hafi því heimild til að gera breytingar á samsetningu heildarlauna starfsmanna í samræmi við kjara- og stofnanasamninga.