Þegar kostnaðarmat var gert fyrir skimun á landamærum var miðað við að 2.000 sýni væru tekin daglega í 100 daga. Heildarútgjöld fyrir þá skimun voru þá áætluð 2,5 milljarðar en gjaldið sem ferðamenn greiða fyrir sýnin á að skila tveimur milljörðum. Þetta kom fram í máli Páls Þórhallssonar, verkefnastjóra í forsætisráðuneytinu, á upplýsingafundi almannavarna í dag.
Því munar hálfum milljarði á útgjöldum og kostnaði en ástæðan fyrir því er að ekki var talið forsvaranlegt að leggja fjárfestingakostnað á ferðamenn en áætlað er að hluti af kostnaðinum fari í innviði og búnað sem mun væntanlega nýtast eftir að skimunartímabili lýkur, að sögn Páls.
Tekjurnar eiga að mæta þeim útgjöldum sem ríkið verður fyrir vegna skimana. Útgjöldin fela í sér laun starfsmanna í skimun á greiningu, kostnað við sýnatökubúnað, pinna og glös, flutning sýna, kostnað við tölvubúnað, breytingar á Keflavíkurflugvelli og fleira.
Tekjurnar fara inn á reikning heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og er þeim útdeilt þaðan.
„Þess verður gætt að mæta kostnaði aðila með öðrum hætti ef tekjurnar duga ekki til,“ sagði Páll sem benti á að gert væri ráð fyrir þjóðhagslegum ávinningi af skimun á landamærum.
Kostnaðarmatið verður líklega endurskoðað fljótlega enda er það óvissu háð, að sögn Páls.