Héraðsdómur Reykjavíkur vísaði á þriðjudag öllum þremur málum, er tengjast systkinunum sem kennd eru við útgerðarfélagið Sjólaskip, frá dómi. Málin snúast um meint brot gegn skattalögum og upphæðirnar í þeim hlaupa á milljörðum króna.
Þetta staðfestir Finnur Þór Vilhjálmsson, saksóknari hjá embætti héraðssaksóknara, samtali við mbl.is og segir hann að frávísun málanna hafi í hádeginu verið kærð til Landsréttar.
Málin voru upphaflega fimm talsins gegn systkinunum fjórum, þeim Ragnheiði Jónsdóttur, Berglindi Jónsdóttur, Haraldi Reyni Jónssyni og Guðmundi Steinari Jónssyni. Í málunum gegn þeim var þeim gert að sök að hafa staðið skil á efnilega röngum framtölum.
Auk þess voru bræðurnir ákærðir saman í einu máli sem varðar erlend félög á Kýpur og Belize sem að útgerð þeirra á vesturströnd Afríku er sögð hafa verið rekin í gegnum. Það er byggt á því að raunveruleg stjórn þessara félaga hafi verið á Íslandi og bræðurnir því borið skattskyldu hér á landi en ekki erlendis – þeir hafi því vanframtalið þrjá milljarða króna á árunum 2006 til 2007.
Málin þrjú gegn bræðrunum var svo sameinað í eitt mál og voru úrskurðirnar sem Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp á þriðjudaginn því þrír talsins.
Þeim ákæruliðum sem sneru að meintum skilum á efnislega röngum framtölum var vísað frá á grundvelli Ne bis in idem reglu Mannréttindadómstóls Evrópu sem leggur bann við tvöfaldri refsingu fyrir sama brot.
Álag sem skattyfirvöld höfðu gert bræðrunum að greiða er talin refsing í skilningi Mannréttindasáttmálans og því ekki hægt að refsa þeim aftur fyrir sama brot nema að uppfylltum ákveðnum skilyrðum sem héraðsdómarinn Guðjón Marteinsson taldi ekki vera fyrir hendi.
Systrunum hafði ekki verið gert að greiða álag þar sem að frestur skattyfirvalda til þess rann út. Dómarinn taldi engu síður að í því hefði falist endanleg úrlausn máls og að ekki væri hægt að ákæra aftur fyrir sama atriði.
Lögmenn bræðranna héldu því svo fram að ákæruliðir sem vörðuðu skattskyldu bræðranna vegna félaga á Kýpur og Belize hafi verið óskýrir eða að skýrleika ákæru hefði verið ábótavant. Á þetta féllst dómarinn og vísaði þeim anga málsins einnig frá dómi.
Fréttin hefur verið uppfærð.