Segir Háskólann hafa svívirt minningu ömmu sinnar og afa

Það var ófögur sjón sem blasti við Sigurði við Végeirsstaði.
Það var ófögur sjón sem blasti við Sigurði við Végeirsstaði. Skjáskot/Facebook

Sigurður Guðmundsson, barnabarn konu sem ásamt systkinum sínum gaf Háskólanum á Akureyri jörðina Végeirsstaði, segir skólann hafa svívirt minningu ömmu sinnar með vanrækslu á jörðinni. 

Sigurður skrifaði opið bréf til Eyjólfs Guðmundssonar, rektors Háskólans á Akureyri, á Facebook í gær. 

„Fyrir 25 árum síðan ákváðu amma mín Guðrún Karlsdóttir og systkyni hennar að gefa Háskólanum á Akureyri myndarlegustu gjöf sem skólanum hefur borist. Fólst hún í húsakosti, nokkrum tugum milljóna í peningum, eitt álitlegasta málverkasafn norðan heiða sem helstu meistarar íslenskrar málaralistar höfðu sett á striga auk nokkur hundruð hektara af ræktuðu landi í Fnjóskadal. Þetta þekkjum við sem Végeirsstaði,“ skrifar Sigurður í færslunni. 

Hann segist hafa átt leið hjá Végeirsstöðum í gærkvöldi og verið illilega brugðið. 

„Allur sá hlýhugur sem ég hef hingað til borið til Háskólans á Akureyri er farinn út í buskann. Sú stórkostlega gjöf sem ættingjar mínir gáfu í góðri trú hefur verið vanvirt og eyðilögð. Minningin um sælureit breyttist í sögusvið hryllingsmyndar þar sem yfirgefnar og ónýtar byggingar sem voru milljónatuga virði eru látnar grotna niður vegna hirðuleysis,“ skrifar Sigurður. 

Hann segir stjórnendur Háskólans á Akureyri hafa svívirt minningu ömmu sinnar og afa með hirðuleysi sínu. Þeir séu vanhæfir og segir Sigurður hvern þann sem hugsanlega ætli að ánafna háskólanum einhverju eftir sinn dag ætti að láta það ógert. 

Vísar ásökunum um vanhirðu á bug 

Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri, segir það ekki rétt að svæðið hafi verið vanhirt. 

„Það verður að fá að dæma sig sjálft með hvaða hætti þetta er allt sett fram. Ég tel að þarna sé mikið skrifað í stílinn og aðstæður eru ekki eins og þarna er lýst,“ segir Eyjólfur. 

„Það er verið að vinna að heildaráætlun um svæðið. Við vitum að við getum nýtt það til kolefnisjöfnunar sem er mjög jákvætt og svo er verið að finna byggingunum ákveðið hlutverk. Þær voru afhendar í mismunandi ástandi og þær byggingar sem voru íbúðarhæfar eru það enn. Þær myndir sem voru teknar sýndu þær skemmdir sem urðu í vetur vegna mikilla snjólægða,“ segir Eyjólfur. 

Hann segir að þó að ekki hafi verið farið í endurbætur hafi farið fram nauðsynlegt viðhald á byggingum jarðarinnar á meðan ákveðið verður hvernig nýtingu bygginganna verði háttað. 

Opið bréf til Háskólans á Akureyri. Rektor Eyjólfur Guðmundsson Að henda perlum fyrir svín. Fyrir 25 árum síðan ákváðu...

Posted by Sigurður Gudmundsson on Miðvikudagur, 8. júlí 2020


 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert