Senda starfsfólk í sóttkví á eigin kostnað

Húsnæði Landspítala í Fossvogi.
Húsnæði Landspítala í Fossvogi. mbl.is/Sigurður Bogi

Forstjóri og framkvæmdastjórn Landspítala hafa ákveðið að frá og með morgundeginum þurfi starfsfólk spítalans sem fer erlendis í frí að fara í sóttkví í fimm daga við heimkomu á eigin kostnað.

Starfsfólk sem fer erlendis í frí þarf því að gera ráðstafanir vegna sóttkvíar í að minnsta kosti 5 daga eftir heimkomu og að hafa óskað eftir og fengið samþykkt frí þann tíma áður en farið er. Þessi breyting tekur gildi 10. júlí 2020“, segir á vef Landspítalans.

Þar er ákvörðunin rökstudd með því að í leiðbeiningum sóttvarnalæknis komi skýrt fram að þau sem á Íslandi búa sé ráðið frá ferðalögum á áhættusvæði. Sömuleiðis hafi heilbrigðisráðherra tekið ákvörðun um breyttar reglur um skimun á landamærunum. 

Þeir sem búa á Íslandi og hafa tengslanet á landinu þurfa að skila sýni á landamærum og aftur eftir 5 daga og vera í sóttkví heima þar til svar úr seinna sýninu er neikvætt.
Í ljósi þess hafa forstjóri og framkvæmdastjórn Landspítala ákveðið að starfsfólk sem fer erlendis í frí þurfi að fara í sóttkví þennan tíma á eigin kostnað“, segir á vef spítalans.

Síðustu þrjú orðin eru feitletruð og því væntanlega athygli starfsfólks sérstaklega vakin á því að starfsfólk þurfi að taka út frídaga þá daga sem það er í sóttkví eða fái ella ekki laun þann tíma sem sóttkví stendur. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert