Allt uppbókað og brjálað að gera

Hótel Klaustur er nærri Kirkjubæjarklaustri.
Hótel Klaustur er nærri Kirkjubæjarklaustri.

„Það hefur allt verið fullt síðustu daga. Öll herbergi eru uppbókuð og mikið að gera,“ segir Sveinn Hreiðar Jensson, hótelstjóri á Hótel Klaustri. Blíðskaparveður hefur verið á svæðinu nærri Kirkjubæjarklaustri undanfarna daga og hefur hótelið notið góðs af því. Að sögn Sveins eru Íslendingar stór hluti gesta. 

„Þetta kom í raun og veru með góða veðrinu og það hefur alveg verið fullt hjá okkur í 3-4 daga. Hér er besta veðrið og við finnum hvernig það bætist jafnt og þétt í umferðina hjá okkur. Gestirnir eru mest Íslendingar, en það hefur sömuleiðs verið að bætast í erlendar bókanir,“ segir Sveinn.

Hjálpaði mikið þegar landið var opnað

Nú eru liðnar nær tvær vikur frá því að skimun fyrir kórónuveirunni hófst í Keflavík. Frá þeim tíma hafa allt að tvö þúsund manns komið inn í landið á degi hverjum. Spurður hvort opnun landamæranna hafi jákvæð áhrif á reksturinn kveður Sveinn já við. „Það hjálpaði mikið þegar landið opnaðist. Það eru að koma inn nýjar erlendar bókanir í júlí,“ segir Sveinn. 

Líkt og aðrir ferðaþjónustuaðilar hefur Hótel Klaustur ekki farið varhluta af ástandinu sem skapaðist vegna kórónuveirunnar. Að sögn Sveins hefur reksturinn þó batnað undanfarið. „Það var lítið í júní en svo kom skot í byrjun júlímánaðar. Ferðagjöfin hefur sömuleiðis eitthvað verið nýtt, en mig grunar samt að fólk sé að gleyma henni. Það má minna fólk á að nýta hana,“ segir Sveinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert