Sigtryggur Sigtryggsson,
Fyrsta farþegaskip sumarsins kom til Reykjavíkur í morgun. Það heitir Le Boreal og er tæplega 11 þúsund brúttótonn. Skipið lagðist að Miðbakka klukkan 9:30 og eru farþegar væntanlegir með leiguflugvél frá París sem mun lenda skömmu fyrir hádegi í Keflavík.
Le Boreal er leiðangursskip og farþegar verða um 200 talsins. Allir farþegar munu fara í skimun á Keflavíkurflugvelli. Farþegar verða síðan fluttir ca 10-15 í hverri rútu niður á Miðbakka.
„Allir farþegar þurfa sjálfir að passa upp á fjarlægðartakmörk og hafa andlitsgrímu. Þegar neikvæð niðurstaða er komin má fólk fara um borð í skipið, þ.e. þurfa að sýna sms því til staðfestingar,“ segir í frétt á heimasíðu Faxaflóahafna.
Skipafélagið Ponant áætlar sex skipakomur í júlí og verður fyrirkomulagið ætíð það sama. Skip félagsins eru leiðangursskipin Le Boreal og Le Bellot.
Upphaflega áttu þessi skip að fara til Hafnarfjarðar en þar sem höfnin þar er ekki skilgreind sem sóttvarnahöfn verður tekið á móti þeim í Reykjavík.