Seinni umferð forsetakosninganna í Póllandi fer fram á morgun. Valið stendur milli núverandi forseta, Andrzej Duda frambjóðanda stjórnarflokksins Laga og réttlætis (PiS) og Rafal Trzaskowski, borgarstjóra í Varsjá og frambjóðanda Borgaravettvangsins (PO).
Pawel Bartoszek borgarfulltrúi er staddur í Póllandi og fylgist að vonum grannt með gangi mála. Hann segir kosningarnar æsispennandi og erfitt að segja til um hvernig þær muni fara. „Ég man varla eftir að hafa séð jafntæpar kannanir í sögu pólskra kosninga,“ segir Pawel. Í tólf könnunum sem framkvæmdar hafa verið í liðinni viku hefur Duda mælst með meira fylgi í sjö þeirra, en Trzaskowski í fimm.
Kosningarnar hafa vakið töluverða athygli um alla Evrópu, þar á meðal hér á landi og segir Pawel að þar spili líkast til inn í hve tæpar þær eru, en ekki síður vegna þess að valið stendur milli tveggja skýrra valkosta: núverandi forseta sem gefi sig út fyrir að vera íhaldssamur þjóðernissinni, og Trzaskowski sem standi fyrir frjálslyndari gildi.
„Á margan hátt er Borgaravettvangurinn [flokkur Trzaskowski] tiltölulega hefðbundinn hægriflokkur sem stendur fyrir frjálsan markað, lægri skatta og er evrópusinnaður. Þá er hann frjálslyndari þegar kemur að réttindum kvenna og hinsegin fólks, þótt hann þætti ekki mjög róttækur á íslenskan mælikvarða.“
Pawel segir að kosningabaráttan hafi verið nokkuð hörð og „pólaríserandi“. Engar kappræður voru haldnar fyrir seinni umferð kosninganna þar sem frambjóðendurnir gátu ekki komið sér saman um vettvang fyrir þær. „Ríkissjónvarpið boðaði til einhvers konar fundar, en Trzaskowski vildi að fleiri stöðvar kæmu að framkvæmdinni. [Stuðningsmönnum Trzaskowski] þykir sem ríkissjónvarpsstöðin sé hlutdræg og það er ekki út í loftið,“ segir hann. „Fyrir vikið boðaði hver frambjóðandi til sinna eigin kappræðna, sem voru auðvitað engar kappræður enda þarf tvo til að svo sé.“
Spurður út í þýðingu kosninganna, segir Pawel ljóst að ef Duda vinnur fái flokkur hans umboð til að halda áfram á þeirri braut sem verið hefur, en flokkurinn hefur farið fyrir ríkisstjórninni frá árinu 2015. Að mati Pawels eru sumar þessara breytinga, svo sem tilraunir til breytinga á dómskerfinu, áhyggjuefni.
Vinni Trzaskowski fáist meira valdajafnvægi í stjórnkerfið. Forsetinn hefur vald til að neita að skrifa undir lög en geri hann það þarf aukinn meirihluta þingmanna til að þau fái staðfestingu. Segir Pawel líklegt að það verði til þess að þingmenn stjórnar og stjórnarandstöðu verði að hafa meira samráð sín á milli, sérstaklega í ljósi þess að stjórnarandstaðan hefur þegar meirihluta í efri deild þingsins.
Ljóst er að augu stjórnvalda í öðrum Evrópuríkjum verða á Póllandi á morgun, en sambanda pólskra stjórnvalda við Evrópusambandið hefur verið stirt undanfarin ár. „Ég held að það sé enginn vafi á því ef þú lítur til vesturhluta Evrópu og ESB að fleiri myndu fagna sigri Trzaskowski en Duda,“ segir Pawel aðpurður. „Það er óhætt að fullyrða hvort sem litið er til kristilegra demókrata, miðjusækinna frjálslyndra flokka eins og míns eigin [Viðreisnar] eða til vinstri. Þar eru öllu fleiri sem myndu hallast að honum,“ segir Pawel.
Kjörstöðum verður lokað klukkan sjö að íslenskum tíma annað kvöld, og verða útgönguspár birtar stuttu síðar. Í ljósi þess hve mjótt er á munum í könnunum, segir Pawel þó að bíða gæti þurft fram á þriðjudag þar til endanleg niðurstaða liggur fyrir, þar sem fjöldi Pólverja er búsettur erlendis og atkvæðin berast síðar til landsins.
Atkvæði þeirra gætu sannarlega ráðið úrslitum, en miðað við kannanir er búist við að Trzaskowski fái yfirgnæfandi meirihluta atkvæða Pólverja í öðrum Evrópulöndum. „Í Bretlandi er því spáð að hann [Trzaskowski] sigri með 75% atkvæða og ég myndi halda að svipað yrði uppi á teningnum hér [á Íslandi],“ segir Pawel.